Stjórnarandstaðan á Alþingi gagnrýndi forsætisráðherra harðlega á Alþingi í dag þegar óundirbúinn fyrirspurnartími var. Kvöddu nokkrir þingmenn sér hljóðs til að ræða störf þingsins þar sem forsætisráðherra var sagður hlaupa undan því að vilja ræða verðtryggingu og mögulegt afnám hennar, eins og hann hafði boðað í kosningum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, vék úr salnum meðan þessi umræða stóð yfir en kom strax aftur í sæti sitt og óundirbúni fyrirspurnartíminn hélt áfram.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tók fyrstur til máls og ítrekaði beiðni frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, flokkssystur sinni, um að umræða um verðtrygginguna yrði tekin upp á Alþingi. Sagðist hann mótmæla því að forsætisráðherra væri „ekki látinn uppfylla starfsskilyrði sín sem ráðherra“. Vildi Árni að Sigmundur myndi ræða málið efnislega í þinginu.
Sigmundur stóð upp undir orðum Árna Páls og gekk úr salnum. Katrín Júlíusdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, kom næst í pontu og sagði Sigmund ekki hafa svarað neinu um þetta mál í þá 10 mánuði sem beiðnin hefði legið frammi. Sagði Katrín að Sigmundur væri með þessu að hlaupa undan einu af stóru málum ríkisstjórnarinnar og að ljóst væri að ekki ætti að afnema verðtrygginguna á þessu kjörtímabili.
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, kom næst í pontu og tók undir með fyrri ræðumönnum og sagði sorglegt að forsætisráðherra hlypi úr þingsalnum og neitaði að ræða „stóra kosningamálið“. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði þessa hegðun ekki ýta undir traust á þingið. „Það er svona hegðun og svona lítilsvirðing sem við sitjum uppi með,“ sagði hún.
Sigríður Ingibjörg sagði næst að hún hefði fyrst lagt þessa beiðni fram í febrúar og svo aftur þegar þing var sett í haust. Fór hún fram á að forseti þingsins passaði upp á að þetta mál kæmist á dagskrá, enda hefði þetta verið stóra kosningamál Framsóknar. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði því næst í pontu að Sigmundur hefði sagt við kosningar að það væri einfalt mál að afnema verðtrygginguna. Nú væri aftur á móti orðið erfitt fyrir hann að ræða málið yfirhöfuð.
Sagði Helgi ekkert því til fyrirstöðu að taka málið upp eftir fyrirspurnatímann ef forsætisráðherra væri ekki andsnúinn því. Sagði hann það rétt þingmanna að spyrja um málið og fá að ræða það. Forseti þingsins var á þessum tíma farinn að berja í þingbjölluna til marks um að Helgi hefði verið of lengi í pontu, en Helgi hélt áfram og talaði um að Sigmundur væri nú í húsi og ætti að geta rætt þetta. „Eða er hann að éta köku í enn eina ferðina,“ bætti hann við og uppskar athugasemd frá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra. „Ósköp ertu ómálefnalegur,“ sagði Gunnar.
Þorsteinn Sæmundsson, sem stýrði fundinum, sagði eftir þetta að samkvæmt upplýsingum forseta væri Sigmundur staddur í húsinu.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, tóku til máls undir þessum lið í framhaldinu áður en óundirbúnar fyrirspurnir héldu áfram, en strax og næsta fyrirspurn hófst mætti Sigmundur í sæti sitt að nýju.