Frá og með 1. nóvember verður Hlemmi lokað kl. 19.00 alla virka daga og kl. 16:00 um helgar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó.
1. janúar 2016 mun Reykjavíkurborg hefja framkvæmdir við Hlemm og verður þá húsinu alfarið lokað. Núverandi starfsemi leggst af á Hlemmi frá þeim degi.
Frétt mbl.is: Matarmarkaður verður á Hlemmi.
Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við Morgunblaðið í sumar að borist hefðu nokkrar umsóknir um að reka starfsemi á Hlemmi og væru þær til skoðunar hjá borgarráði. „Það eru komnar tillögur frá nokkrum aðilum og það er verið að skoða þær núna,“ sagði Hjálmar í sumar. „Þar gera umsækjendur grein fyrir því hvers konar rekstur þeir sjá fyrir sér á Hlemmi og skila inn rekstraráætlun. Ég hugsa að það sé frekar stutt í það að rekstraraðili verði valinn og það verður þá tilkynnt,“ sagði Hjálmar.
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir m.a.: „Viðskiptavinir eiga að geta notið veitinga á staðnum og þar verður einnig í boði fjölbreytt úrval matar svo sem kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir auk tengdrar sérvöru á borð við blóm og kaffi.“
Þar kemur jafnframt fram að nýr rekstraraðili muni taka þátt í að skipuleggja breytingar á hlutverki hússins í samvinnu við Reykjavíkurborg. Hann velji verslanir og veitingastaði til samstarfs, afli tilskilinna leyfa, sjái um kynningar- og markaðsmál og annist allan daglegan rekstur hússins, þar með talið rekstur á salernum og öryggisvörslu. Reykjavíkurborg geri sérstaklega ráð fyrir því að salerni verði opnuð aftur í húsinu.
Farmiðasala Strætó færist yfir til verslunar 10-11 á Laugavegi 116, sem hefur bæst í hóp þeirra rúmlega 20 sölustaða sem fyrir voru. Farmiðar eru líka seldir í appinu og á strætó.is.
Hægt verður að sækja pöntuð kort í afgreiðslu Strætó í Mjódd eða fá þau send heim í pósti.
Óskilamunir verða afhentir í afgreiðslu Strætó í Mjódd.