Frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hefur verið lagt fram á Alþingi af Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra. Frumvarpið nær bæði til para sem og barnlausum einstaklingum óháð því hvort um er að ræða karlmenn eða konur.
„Með frumvarpinu verður barnlausum einstaklingum og pörum gert kleift að nýta staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til að eignast barn en hingað til hefur nýting úrræðisins með tæknifrjóvgun verið óheimil hér á landi,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Frumvarpið taki jafnt til kvenna og karla án tillits til hjúkskaparstöðu eða kynhneigðar.
„Sérstaklega eykur þetta möguleika karlmanna á Íslandi þar sem þeim verður heimilt að nýta sér staðgöngumæðrun til að eignast barn. Einnig er bent á að með frumvarpinu er réttur allra barna til að þekkja uppruna sinn tryggður þar sem lagt er til að banna nafnlausar kynfrumugjafir við tæknifrjóvgun. Ekki er talið að afnám nafnleyndar kynfrumugjafa muni hafa teljandi áhrif á eftirspurn eftir kynfrumugjöf.“
Fram kemur ennfremur að rætt hafi verið um að þörf kynni að vera á staðgöngumæðrun í um tíu tilvikum á ári. Hafa yrði í huga að þar sem staðgöngumæðrun hafi til þessa verið ólögleg væri að líkindum til staða uppsöfnuð þörf. Óvissa ríkti hins vegar um það hvort nægilega margar staðgöngumæður væru reiðubúnar að taka þetta hlutverk að sér til að svara þörfinni.