Kalla stjórnvöld til ábyrgðar

Landspítali háskólasjúkrahús.
Landspítali háskólasjúkrahús. mbl.is/Ómar

Störf sjúkraliða og starfsmanna SFR eru mikilvægir hlekkir í þjónustukeðju Landspítalans og boðuð verkföll þeirra munu hafa veruleg neikvæð áhrif á úrræði hans til að sinna þeim sem þangað leita, að mati læknaráðs Landspítalans. Það kallar stjórnvöld til ábyrgðar á yfirvofandi röskun á starfseminni.

Í ályktun sem samþykkt var á fundi ráðsins í dag kemur fram að á Landspítalanum starfi nú 562 sjúkraliðar og starfsmenn í SFR séu 1.049. Starfsmenn SFR eru m.a. allir læknaritarar, lyfjatæknar og öryggisverðir.

„Störf sjúkraliða og starfsmanna í SFR eru mikilvægir hlekkir í þjónustukeðju spítalans. Stjórn læknaráðs Landspítala harmar að enn þurfi að koma til verkfalla. Ljóst er að boðuð verkföll sjúkraliða og starfsmanna í SFR munu hafa veruleg neikvæð áhrif á úrræði Landspítalans til að sinna þeim er þangað leita. Stjórn læknaráðs hvetur deiluaðila til að ganga nú þegar til samninga svo starfsemi spítalans geti haldið áfram á fullum dampi,“ segir í ályktun ráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert