„Ég held að við höfum gengið heldur of langt,“ sagði Brynjar Níelsson, varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, um nýsett lög um fasteignasala, en um 250 fasteignarsalar standa frammi fyrir því að missa vinnuna vegna breytinga sem Alþingi hefur samþykkt. Brynjar vill að þetta verði endurskoðað.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ræddi málið við Brynjar á Alþingi undir liðnum störf þingsins í dag. Hann sagði að lögin og reglugerð þar að lútandi hefði það að markmiði að gera frekari kröfur til fasteignasala og auka þar með gæði þeirra þjónustu sem þeir veiti.
„Ég tel hins vegar að löggjafanum hafi orðið á í messunni þegar hann setti þessi lög,“ sagði Össur. Ástæðan væri sú, að einungis þeir sem hafi löggildingu sem fasteignasalar megi nú stunda þau störf. „Í dag eru 250 sölufulltrúar sem í reynd með setningu nýrrar reglugerðar munu missa vinnuna í einu vetfangi. Þeim er að berast bréf þessa dagana þar sem er verið að segja þeim upp. Flestir eru upp á hlut sem þýðir að þeir verða að ganga út sama dag. Og þetta er þegar hafið,“ sagði Össur.
Hann spurði Brynjar hvort það væri ekki sanngjarnt að nefndin, eða þingið eftir atvikum, gerði reka að einhverskonar lagabreytingu sem myndi skapa tímabundinn farveg fyrir það fólk sem stæðu frammi fyrir því að missa vinnuna án nokkurs fyrirvara.
„Það er staðreynd að í þessu tilviki sem hér um ræðir eru um það bil 250 menn sem hafa unnið þessi störf jafnvel árum saman, og jafnvel áratugum saman,“ sagði Brynjar á Alþingi í dag.
„Ég mun leggja til að þetta verði endurskoðað í nefndinni, með hugsanlega lagabreytingu í huga, þannig að við getum tryggt það að þeir geti haldið störfum að einhverju leyti,“ sagði Brynjar. Hann bætti við að hann vildi tryggja að fólkið gæti sótt nám, þó að það hefði ekki stúdentspróf, þannig að reynsla þeirra yrði metin til jafns á við stúdentspróf. Þannig væri hægt að tryggja það að menn gætu aflað sér nauðsynlegra réttinda.
Brynjar segist hafa rætt málið við iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem er flutningsmaður frumvarpsins. „Mér sýnist svona fljótt á litið að löggjafinn hafi gengið meira að segja aðeins lengra heldur en ráðherra hafi upphaflega gert ráð fyrir í frumvarpinu. Þannig að við endurskoðum þetta til að tryggja það að hér séu ekki allt í einu 250 manns án lífsviðurværis.“