Skaðleg áhrif karlmennskunnar

Anna Lilja sagði karla vilja vera frjálsa til að ræða …
Anna Lilja sagði karla vilja vera frjálsa til að ræða tilfinningar og líðan. mbl.is/Golli

Karlar telja mjög lítið gagn í því að tilkynna og kæra ofbeldi og leita síður aðstoðar eftir að hafa verið beittir ofbeldi. Þá verða þeir fyrir meiri missi en konur hvað varðar félagslega stöðu í kjölfar ofbeldis. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Önnu Lilju Karelsdóttur félagsfræðings á málþingi Félagsfræðingafélags Íslands í morgun, en Anna sagði ofbeldi gegn körlum tíðara en opinberar tölur gefa vísbendingar um.

Anna hefur rannsakað kynferðisofbeldi gegn körlum en fáar slíkar rannsóknir hafa verið framkvæmdar. Ein af tilgátunum sem hún setti fram var að samfélagsímynd karlmennskunnar gæti haft skaðleg áhrif hvað varðar upplifun karla á ofbeldi, en í rannsókninni freistaði Anna þess m.a. að kanna félagslega stöðu þeirra fyrir og eftir.

Í rannsókn sinni ræddi Anna við sjö karlmenn sem beittir höfðu verið kynferðislegu ofbeldi. Þeir voru á aldrinum 22-58 ára. Þá ræddi hún við fjórar konur á sama aldursbili til samanburðar, og tvö lögreglumenn. Hún sagði að aðeins tveir viðmælendur hefðu strax opnað sig um ofbeldið en aðrir hefðu þegið í lengri tíma.

Karlarnir höfðu margir sömu sögu að segja; þeir upplifðu skömm og reyndu að fela afleiðingar ofbeldisins með því að setja upp grímu. Einn viðmælandi Önnu, sem beittur var ofbeldi af Karli Vigni Þorsteinssyni, sagðist hafa reynt að rjúfa þögnina í seinni tíð en fengið dræmar undirtektir. Annar, sem var beittur ofbeldi af hendi kvenna í æsku, sagðist hafa þagað þar sem hann trúði því ekki að ásökunum unglingspilts gegn fullorðinni konu yrði trúað.

F.v.: Drífa Jónasdóttir afbrotafræðingur, Anna Lilja Karelsdóttir félagsfræðingur og Alda …
F.v.: Drífa Jónasdóttir afbrotafræðingur, Anna Lilja Karelsdóttir félagsfræðingur og Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, voru meðal þeirra sem tóku þátt í pallborðsumræðum. mbl.is/Golli

Meðal þeirra afleiðinga sem ofbeldið hafði fyrir mennina voru drykkjuvandamál, kvíði, skömm, brotin sjálfsmynd, einangrun og sjálfsvígshugsanir. Þá áttu allir viðmælendur Önnu við líkamlega vandamál að stríða vegna ofbeldisins. Einn mannanna lýsti því einnig hvernig ofbeldið sem hann var beittur sem barn hefði haft áhrif á hvernig hann upplifði samskiptin við eigin börn, en hann fann t.d. til streitu þegar dóttir hans stökk á hann í leik; vegna þess hvernig það liti út gagnvart öðrum.

Að sögn Önnu sögðust karlarnir allir hafa misst lífsviljann á einhverjum tímapunkti og fundist þeir ekki verðugir. Þeir upplifðu reiði; gagnvart gerandanum, sjálfum sér og aðstandendum. Einn sagði umræðuna um kynferðisofbeldi vekja gremju, þar sem talað væri um karla sem gerendur og konur sem þolendur. „Það er ekkert smart að vera karlmaður og konur og karlar hafa verið að nauðga manni,“ sagði hann.

Anna sagði karlana hafa upplifað að missa tengsl við sitt nánasta umhverfi og úrræði þeim til handa væru takmörkuð. Lítill hluti mála skilaði sér til lögreglu, en öðruvísi væri tekið á málum í dag en á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, þegar brotið var á viðmælendum hennar.

Ranghugmyndir um karlmennsku lifa góðu lífi

Í pallborðsumræðum sagði Hjálmar G. Sigmarsson, ráðgjafi hjá Stígamótum, að almennt héldi fólk að þjónusta Stígamóta væri aðeins fyrir konur en það væri rangt. Stígamót hefðu unnið að því að auka þekkingu sína um ólíka hópa, t.d. fatlaða, og að ráðinn hefði verið karlkyns ráðgjafi til að auka þjónustu við karlkyns þolendur; nefnilega hann sjálfur.

Hann sagði að Karl Vignis-málið svokallaða hefði orðið til þess að margir leituðu sér hjálpar, en hlutfall karla af þeim sem leituðu til Stígamóta hefði farið úr 10% í venjulegu ári í 18% árið 2013, þegar mál Karl Vignis komst í hámæli.

Hjálmar sagði það tilfinningu starfsmanna Stígamóta að karlar væru síður líklegir til að ræða ofbeldi við nokkurn mann og að þeir leituðu sér einkum hjálpar vegna þrýstings frá mökum eða fjölskyldu. Samtökin finndu fyrir því að aukin umræða hjálpaði, og ekki síst við að takast á við ranghugmyndir um karlkyns þolendur, sem færu saman við ranghugmyndir um karlmennsku. Sagði Hjálmar að körlum hefði verið kennt „að harka af sér og vera ekki með tilfinningalegt væl“, en ranghugmyndir af þessu tagi lifðu því miður alltof góðu lífi, bæði í hugum karla og þeim skilaboðum sem þeim væru send.

Frétt mbl.is: Börn þekkja almennt til heimilisofbeldis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert