„Þetta eru náttúrulega gríðarleg vonbrigði og okkur þykir þetta stiga í stúf við alla réttlætiskennd. Það er einfaldlega mikið réttlætismál að fá greitt fyrir unna vinnu,“ segir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, í samtali við mbl.is.
Félagsdómur sýknaði í dag ríkið í máli sem félagið höfðaði gegn því en dómur féll skömmu eftir klukkan fimm. Tveir dómarar skiluðu sérstkvæðum ljósmæðrum í vil. Ljósmæður segja að dregin hafi verið 60% af daglaunum ljósmæðra á meðan á verkfalli þeirra stóð fyrr á árinu þrátt fyrir að sumar þeirra hafi unnið fulla vinnu á meðan á verkfallinu hafi staðið. Málið hefur fordæmisgildi þar sem staðið var með sama hætti að málum gagnvart lífeindafræðingum, geislafræðingum og náttúrufræðingum á Landspítalanum á meðan verkfallsaðgerðir þeirra stóð.
„Það er mjög þungt hljóð í ljósmæðrum. Við erum bara ótrúlega svekktar yfir þessu. Við skiljum eiginlega ekki hvernig er hægt að komast að þessari niðurstöðu. Við vonuðumst auðvitað eftir öðru enda töldum við borðleggjandi að ef maður mætti í vinnuna þá ætti maður að fá borgað fyrir það. Það er bara svo einfalt,“ segir Áslaug.