Fyrir milligöngu MP banka vildi ótilgreindur lífeyrissjóður kaupa hlutabréf í Símanum á genginu 3,45 af fjárfestum sem eignuðust hlut í Símanum í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækisins.
Þetta gerðist í maí eða rúmum þremur mánuðum áður en Arion banki ákvað að selja fjárfestahópi, undir forystu forstjóra Símans, 5% hlutafjár í fyrirtækinu á genginu 2,5, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Því er ljóst að í aðdraganda sölunnar var sjóður með mikla kaupgetu að reyna að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á 38% hærra gengi en því sem fjárfestahópurinn greiddi fyrir hlutinn í ágúst. Ólgu gætir meðal lífeyrissjóða eftir að greint var frá því að tveir hópar hefðu fengið að kaupa 10% hlut í Símanum á gengi sem var langt undir því gengi sem 21% hlutur í fyrirtækinu var seldur á í lok liðinnar viku.