„Ég held að við þurfum að beita dálítið grimmum aðgerðum til að jafna okkar hlut,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, m.a. við setningu þings Starfsgreinasambandsins í gær.
Fram kom í máli hans að komin væri upp ný, óvænt og alvarleg staða á vinnumarkaði vegna launahækkana hjá hinu opinbera umfram launaþróun á almennum vinnumarkaði og eftir að upp úr slitnaði í viðræðum um nýtt vinnumarkaðslíkan.
Gylfi sagði að nú virtust ekki lengur vera forsendur fyrir nýju vinnumarkaðslíkani, því ASÍ-félagar myndu ekki kvitta upp á fyrirkomulag þar sem hækka ætti laun meira á opinbera sviðinu kerfisbundið ár eftir ár heldur en á almenna markaðinum. „Ég held að við þurfum að beita dálítið grimmum aðgerðum til að jafna okkar hlut,“ sagði Gylfi.
Aðgerðin mistókst
Hann sagðist hafa vonast til að geta notað þetta tækifæri á þinginu til að kynna samkomulag á vinnumarkaði um ný og breytt vinnubrögð að norrænni fyrirmynd en eins og fram hefur komið slitnaði upp úr þeim viðræðum í seinustu viku.
Gylfi rifjaði upp að lagt hefði verið í þessa vegferð árið 2013 og gerður var aðfararsamningur sem átti að vera undirbúningur að því hvernig að þessu yrði staðið. ,,Og við höfum náð saman um það hjá Alþýðusambandinu að sameinast um einhverja stefnu, sem gekk út á það að í hvert skipti sem við semjum gerum við betur við þá sem eru tekjulægstir. Við fórum að kalla þessa stefnu samræmda launastefnu. BSBR tók þátt í þessu með okkur líka,“ sagði hann.
Markmið samninganna voru að lækka verðbólgu og vexti og auka kaupmátt.
„En aðgerðin mistókst að því leyti að háskólahóparnir, sérstaklega hjá ríki og sveitarfélögunum, lýstu í raun og veru yfir stríði á hendur þessari stefnu og það stríð stendur ennþá yfir,“ sagði Gylfi.
Þessum hópum hafi tekist að fá sveitarfélög og ríkið til þess að semja um allt aðrar og miklu meiri launahækkanir fyrir sig en samið var um á almenna vinnumarkaðinum. Gerðardómur hafi svo í sumar staðfest þessa launaþróun hjá ríki og sveitarfélögum með því að rökrétt væri að taka umsamdar launahækkanir 5% lægsta hluta tekjuskalans og færa 5% hæsta hluta tekjuskalans þær með prósentuhækkun.
,,Þetta stríð er í gangi ennþá. Við köllum það höfrungahlaup. Ég verð að viðurkenna að það eru mér mikil vonbrigði að félagar okkar í BSRB virðast hafa yfirgefið þessa stefnu. Það er ekki lengur krafa félaga okkar í BSRB að það beri að hækka lægstu launin meira en annarra, heldur þvert á móti hafa þau tekið þátt í því að það eigi að vera það fyrirkomulag að hækka eigi alla opinbera starfsmenn meira heldur en starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Um slíkt verður aldrei friður,“ sagði Gylfi.
Mönnum væri því mikill vandi á höndum. ,,Það er í gangi mjög mikill ágreiningur á milli ólíkra tekjuhópa og allir vilja fá leiðréttingu sinna mála. Gerðardómur er orðinn viðmið,“ sagði hann. Benti Gylfi á að það væri óumdeilt meðal hagfræðinga allra samtakanna á vinnumarkaði og raunar forystumanna líka að það stefndi í mikið óefni í þróun verðbólgunnar, gengis, vaxta og atvinnustigs.
Um þingið er fjallað í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.