Virkja fyrirtæki í loftslagsmálum

Borgin vill vinna með fyrirtækjum til að draga úr losun …
Borgin vill vinna með fyrirtækjum til að draga úr losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum. mbl.is/Styrmir Kári

Reykjavíkurborg og fyrirtækið Festa hefur boðið þrjú hundruð stærstu fyrirtækjum landsins að taka þátt í samvinnu um að ná árangri í loftslagsmálum. Fyrirtækin muni í kjölfarið skrifa undir yfirlýsingu sem skuldbindur þau til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og verður lögð fram á loftslagfundi Sameinuðu þjóðanna í París.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að nú þegar hafi mörg fyrirtæki skráð sig til þátttöku í verkefninu og önnur lýst yfir áhuga. Fyrst um sinn verður aðildarfyrirtækjum Festu, stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar og 300 stærstu fyrirtækjum á Íslandi boðin þátttaka í verkefninu.

Verkefnið sé hugsað sem hvatning til rekstraraðila um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á eigin forsendum og sýna þar með frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Fyrirtækjum sem taka þátt býðst einnig fræðsla um loftslagsmál, bæði hvernig nálgast á viðfangsefnið með praktískum hætti og reynslusögur annarra fyrirtækja af því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri.

Gefa reglulega út upplýsingar um árangurinn

Fulltrúar fyrirtækjanna sem taka þátt skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu um loftslagsmál í Höfða um miðjan nóvember. Með aðild að yfirlýsingunni skuldbinda fyrirtækin sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Þau munu einnig mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu mála.

Stefna Reykjavíkur í loftslagsmálum er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 35% fyrir árið 2020. Stefnan var fyrst sett fram árið 2009 og er nú hluti af aðalskipulagi Reykjavíkur. Einnig er unnið að stefnumörkun borgarinnar í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs borgarinnar.

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í París í desember verður rammasamningur þeirra vegna loftslagsbreytinga (UNFCCC) samþykktur en markmið hans er að sporna við hnattrænni hlýnun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Yfirlýsingin sem fyrirtæki og Reykjavíkurborg munu skrifa undir verður afhent í tengslum við ráðstefnuna í París. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert