Arion banki hefur staðfest að forsvarsmenn hans höfðu ekki fulla yfirsýn yfir það hvaða fjárfestar stóðu að baki kaupum á 5% hlut bankans í Símanum í ágúst síðastliðnum. Hluturinn var seldur á 33% lægra verði en bankinn fékk í útboði í liðinni viku.
Meðal skýringa sem gefnar voru stjórnarmönnum í Símanum þegar kaupin voru kynnt þeim var að með sölunni væri verið að tryggja aðkomu erlendra fjárfesta og aðila með sérþekkingu á fjarskiptamarkaði.
Ólga er meðal stjórnarmanna í Símanum vegna framkvæmdar útboðsins og sölu bankans á 10% hlut sínum í aðdraganda þess, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.