Í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París hefur Francois Hollande Frakklandsforseti ferðast víða um heim, m.a. til staða þar sem loftslagsbreytingar hafa þegar sett mark sitt á samfélög. Í erindi sínu á Arctic Circle ráðstefnunni sagðist hann hafa heimsótt Filippseyjar, þar sem flóðbylgjur hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu, og eyðimerkur þar sem þurrkar eru að aukast. Hann sagði áhrifin mismikil eftir svæðum en hér á Íslandi og á norðurslóðum væru áhrif loftslagsbreytinga auðsýnileg. Ef ekkert yrði að gert yrði komandi kynslóð e.t.v. sú síðasta til að upplifa mörg undur veraldar.
Forsetinn sagði viðstöddum frá ferð sinni á Sólheimajökul í dag, þar sem hann hefði heyrt dropana sem væru til marks um yfirstandandi þróun og að sér hefði orðið hugsað til þess hvernig ástandið yrði eftir eitt til tvö ár. Hann sagðist vilja að heimurinn, eða a.m.k. Frakkar, sem teldu sig oft vera nafla alheimsins, horfðust í augu við þennan raunveruleika. Stundum segðu myndir meira en bækur og skýrslur, og sú mynd sem blasti við sér í dag hefði verið afar skýr. Hollande sagðist hafa séð túrista á ferli, og að í raun hefði hann sjálfur verið eins og túristi, að koma í síðasta skipti að sjá eitthvað sem væri hverfandi.
Hann sagðist hins vegar ekki vilja vera hér til að sjá eitthvað sem væri að hverfa. Við værum ábyrg. Hann fagnaði því átaki að safna þeim saman að hringborðinu sem ættu hagsmuna að gæta en sagði þróunina ekki að rekja til gjörða þeirra, heldur væri um að ræða afleiðingar loftslagsbreytinga vegna gróðurhúsalofttegunda og kolefnalosunar, sem væru að breyta því sem menn héldu að væri varanlegt.
Hollande sagði að bráðunun myndi opna ákveðin tækifæri; nýjar siglingaleiðir og nýtingu auðlinda. Hann sagði efnahagsframfarir þó ekki mega byggja á náttúrueyðileggingu. Hann sagði mannin ábyrgan og að Frakkland myndi leggja sitt af mörkum. Hann kom inn á rannsóknarverkefni Frakka á norðurslóðum og sagði mikilvægt að efla vísindalegt samstarf. Hann sagði að færa þyrfti fórnir en hafa þyrfti almenna skynsemi að leiðarljósi.
Forsetinn sagði að Frakkar myndu ekki sætta sig við að farið yrði um hafsvæði norðursins eins og hvert annað svæði og að Frakkland hefði átt aðkomu að því að byggja ramma um aðgerðir á norðurslóðum.
Meðvitund um áhrif loftslagsbreytinga hefur aukist, sagði forsetinn; m.a. meðal fyrirtækja og banka sem þyrftu að taka tillit til kolefnalosunar í áætlunum sínum. Hann sagði hlýnun jarðar óumdeilda og að mörg stjórnvöld og staðaryfirvöld hefðu þegar gert viðeigandi áætlanir í orkumálum. Hann sagði orð ekki nóg, en að yfirlýsingar ríkja um aðgerðir væru byrjun. Leitað hefði verið eftir heitum ríkja og 150 hefðu þegar orðið við þeirri beiðni, en þau stæðu fyrir 90% af losun gróðurhúsalofttegunda.
Heitin dyggðu ekki til að takmarka hækkun hitastigs við 2 gráður en m.a. þess vegna væri nauðsynlegt að endurskoða þau á fimm ára fresti, til að taka stöðuna og aðlaga aðgerðir. Forsetinn sagði nauðsynlegt að tryggja að hitaaukningin færi ekki yfir 2 gráður fyrir næstu aldamót, en til þess þyrfti m.a. fjármagn til þess m.a. að efla forvarnir og vinna að tækniframförum. Hann sagði að 60-70 milljörðum dollara hefði verið heitið, en markmiðið væru 100 milljarðar dollara fyrir desember.
Hollande sagðist ekki hafa áhyggjur af því hvort samkomulag næðist í París; það sem skipti máli væri hversu metnaðarfullt það yrði. Hann sagði ekkert gefið, en allt mögulegt. Að hluta snérist þetta um vilja, almanna vilja og vilja leiðtoga.
Forsetinn sagði að í París myndi hann hafa viðstadda í huga, og einnig gönguferð sína nærri jöklinum sem er að hverfa. Þau svæði sem væru að hverfa undir hækkandi sjávarborð, samfélög í eyðimörkinni og fólkið á Filippseyjum og Vanuatu, sem hefðu mátt þola flóðbylgjurnar. Einnig þá sem fylgdust með og þá sem myndu kalla okkur til ábyrgðar. Hann sagði að það væri ekki nóg að ná árangri fyrir þessa kynslóð heldur þyrftum við einnig að ná árangri fyrir komandi kynslóðir.