Fundur samninganefndar ríkisins við SFR, SLFÍ og LL lauk núna á fjórða tímanum í dag eftir að hafa staðið síðan klukkan hálf ellefu í morgun. Engin niðurstaða var af fundinum, en áformað er að hittast aftur á morgun klukkan ellefu. Var fundinum frestað til að allir deiluaðilar gætu gert útreikninga á því sem formenn félaganna hafa kallað grunn hugmyndafræði í viðræðunum.
Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir í samtali við mbl.is að viðræður séu í sjálfu sér enn á fyrstu metrunum. Segir hún engin tilboð felast í þeim útreikningum sem verið sé að skoða. „Í sjálfu sér ekki, bara báðir aðilar að reikna sig inn í hugmyndafræði sem er í gangi án þess að nokkuð sé í hendi,“ segir hún og bætir við „Þetta er algjör grunnvinna sem er verið að skoða. Við erum að horfa til þess að ef hugmyndafræðin gengur upp þá erum við komin af stað.“
Sjúkraliðafélagið hefur verið í samfloti með Landssambandi lögreglumanna og SFR í viðræðunum sem nú standa yfir. Kristín segir að í dag hafi þó hver og einn hópur fundað mikið hver fyrir sig.
Aðspurð hvort hún telji einhvern möguleika á að viðræðurnar muni skila einhverju um helgina og jafnvel verða til þess að hætta við verkfall segir Kristín svo ekki vera. „Það verða áfram verkföll á mánudaginn, það er alveg ljóst.“