Magnaðar myndir RAX frá Grænlandi

Fyrr á árinu slóst Ragnar Axelsson - RAX, ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is, í för með veiðimanninum Tobiasi Ignatiussen um austurströnd Grænlands og fræddist um aðstæður fólksins þar. Tobias er einn af síðustu veiðimönnunum þar en örar breytingar hafa orðið á samfélaginu á síðustu 20 árum sem margar má rekja til hlýnunar á norðurslóðum. 

Tobias býr í þorpinu Tasiliaq en á svæðinu öllu búa rúmlega 3.000 manns, þar af um 2.000 í Tasiilaq eða Ammassalik, eins og bærinn var kallaður upp á dönsku. Hinir rúmlega 1.000 íbúar svæðisins búa í fimm mislitlum þorpum á svæðinu.

Í þessum litlu þorpum býr fólk sem hefur haft lifibrauð sitt af veiðum. Núna eru þessi þorp að breytast, veiðimönnum hefur fækkað á umliðnum árum og nýir tímar tekið við. Fólk flytur í stærri bæina úr litlu þorpunum en sumir vilja vera í heimabæ sínum, þar er lífið eins og þeir vilja lifa því.

Tobias Ignatiussen er einn af örfáum veiðimönnum sem eftir eru á svæðinu og lifa eingöngu af veiðum. Það er ekki í sjónmáli að ungir drengir vilji lifa sem veiðimenn. Tobias vill lifa með náttúrunni og því sem hún hefur upp á að bjóða. Tobias ólst upp við veiðar með fjölskyldu sinni á afskekktri lítilli eyju með tveimur húsum hlöðnum úr grjóti. Húsin voru aðeins nokkrir fermetrar á stærð en voru vel staðsett fyrir veiðimennsku. Hafstraumar brutu upp hafísinn við eyjuna svo hægt var að róa á kajökum og veiða sel og önnur dýr. Það var stutt til veiða frá kofunum

Sérblað sem fylgdi Morgunblaðinu í morgun, Sjötta skilningarvitið, er helgað norðurslóðum og er stútfullt af myndum Ragnars. Í einni grein í blaðinu lýsir Ragnar ferðalaginu og þeirri hörðu lífsbaráttu sem fólkið í veiðimannasamfélögum Grænlands býr við.

Í myndskeiðinu er fjöldi ljósmynda sem birtar eru í blaðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert