Grænlandsjökull minnkar um einn tíunda hluta af Vatnajökli á ári, 350 rúmkílómetra. Það þýðir að ef Vatnajökull bráðnaði jafnhratt og Grænlandsjökull hyrfi hann á tíu árum. Þetta kemur fram í máli Tómasar Jóhannessonar, hópstjóra jöklarannsókna á Veðurstofu Íslands, í blaðauka um norðurslóðir, Sjötta skilningarvitið, sem fylgir Morgunblaðinu í dag. „Það er sláandi,“ segir Tómas en bráðnun íss á Grænlandi er þrjátíu sinnum meiri en á Íslandi. Í blaðinu getur að líta fjölmargar nýjar ljósmyndir Ragnars Axelssonar, teknar á norðurslóðum.
Kevin Anderson, prófessor í orkumálum og loftslagsbreytingum við Háskólann í Manchester, lýsir áhyggjum sínum af hlýnandi loftslagi. „Við erum í „uppbótartíma“ þegar kemur að hlýnun upp á 2 °C – og útlitið er ekki gott. Hvað sem því líður mun lífið halda áfram, jafnvel þótt við klúðrum kolefnisáætluninni upp á 2 °C, og við verðum bara að leggja enn harðar að okkur við að draga úr losun ásamt því að búa okkur undir áhrif staðbundinnar hlýnunar upp á 4, 5 eða jafnvel 6 °C í framtíðinni,“ segir hann.