Aðstæðurnar slæmar óháð stöðu

Skjáskot úr kvöldfréttum RÚV.
Skjáskot úr kvöldfréttum RÚV. RÚV

Umsókn sýrlenskrar fjölskyldu um hæli á Íslandi verður ekki tekin til efnislegar meðferðar hjá Útlendingastofnun á grundvelli þess að hún hafi þegar stöðu flóttafólks í Grikklandi. Lögmaður fjölskyldunnar segir þær aðstæður sem bíði hennar þar mjög daprar, margir flóttamenn þar greini jafnvel ekki mun á því að hafa stöðu flóttamanns og ekki.

Fjölskyldan hefur áður sagt frá því í Kastljósi RÚV að hún vilji ekki fara aftur til Grikklands. Þar óttist hún að lenda á götunni og foreldrarnir að missa börnin frá sér. Úrskurður Útlendingastofnunar var samstundis kærður til kærunefndar útlendingamála við birtingu, að sögn Kristjönu Fenger, lögmanns fjölskyldunnar.

Öðrum ekki vísað aftur til Grikklands

Hælisleitendum er ekki vísað frá Íslandi aftur til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar sem kveður á um að fólk sé sent til fyrsta komulands sökum slæmrar stöðu flóttamanna þar í landi. Þar sem fjölskyldan hefur þegar öðlast stöðu flóttafólks í Grikklandi þá hins vegar gildir sú ákvörðun ekki í máli hennar.

Þessar aðstæður hafa ekki komið upp áður, segir Kristjana. „Fólk er ekki sent aftur til Grikklands ef það er með opna hælisumsókn þar í landi en í þessu tilviki eru þau þegar með hæli. Það hefur ekki komið upp áður hér á landi og það flækir málið þó að réttarstaða þeirra sé ekki mikið betri við það.“

Grikkir eru í miklum vandræðum með að takast á við straum flóttamanna til landsins og ástandið er verulega slæmt sums staðar, s.s. á eyjunni Lesbos. Samfara versnandi efnahagsástandi segir Kristjana aðstæðum flóttamanna einnig hafa hrakað í landinu. „Aðstæðurnar eru virkilega slæmar óháð því hvort fólk er hælisleitendur eða flóttafólk. Margir gera sér ekki grein fyrir því að þeim hafi verið veitt hæli, réttarstaðan breytist það lítið. Fólk hefur ekki rétt til vinnu, það fær ekki fjárhagsaðstoð og því bjóðast ekki búsetuúrræði.“

Mál fjölskyldunnar fer nú til umfjöllunar hjá kærunefnd útlendingamála.

Skjáskot úr kvöldfréttum RÚV.
Skjáskot úr kvöldfréttum RÚV. RÚV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert