Mikið eftir óunnið í kjaraviðræðum

Samninganefndir SFR, SLFÍ og Landsambands lögreglumanna fyrr í vikunni.
Samninganefndir SFR, SLFÍ og Landsambands lögreglumanna fyrr í vikunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Viðræðum í kjaradeilu SFR, Sjúkraliða og lögreglumanna, í Karphúsinu, fer senn að ljúka í kvöld. Stéttarfélögin vinna í sínum hópum með þær tillögur sem eru á borðinu og funda milli þess sín á milli. Boðað hefur verið aftur til fundar kl. 11 í fyrramálið.

„Það liggur nú á fjármálaráðuneytinu að reikna það út hvernig sú hugmyndafræði sem við höfum lagt fram stemmir við það hvernig mál standa séð frá þeirra bæjardyrum,“ sagði Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Ekkert útlit er fyrir annað en áframhaldandi verkfallsaðgerðir að sögn Kristínar. „Því miður sé ég fram á það að verkföll haldi áfram eftir helgi. Það er gríðarmikil vinna eftir óunnin jafnvel þó fallist sé á þessa hugmyndafræðilegu nálgun, en það er ekki í hendi enn að það gangi upp.“

Boðuð hafa verið verkföll hjá sjúkraliðafélaginu og SFR aðfaranótt mánudags næstkomandi fram að aðfaranótt miðvikudags. Ótímabundið verkfall er í gildi hjá SFR á Landspítalanum, hjá Ríkisskattstjóra, sýslumannsembættunum og tollstjóra.

Kristín Á. Guðmundsdóttir
Kristín Á. Guðmundsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert