Á meðan fjárfestingar í byggingarstarfsemi hafa stórlega aukist undanfarin tvö ár hefur fjöldi starfandi í greininni eiginlega staðið í stað. Framkvæmdastjóri Samiðnar og hagfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins segja dæmið ekki ganga alveg upp, þótt nokkur atriði geti mögulega skýrt einhverja skekkju. Þá er ljóst að með auknum umsvifum í byggingariðnaðinum á komandi árum er mikil þörf fyrir innflutning á vinnuafli og gæti jafnvel verið svo að næstum allur hluti fjölgunar iðnaðarmanna á næstum árum komi erlendis frá.
Fjárfestingar í byggingar- og mannvirkjageiranum jukust um tæp 15% milli áranna 2013 og 2014. Í ár hefur einnig verið mikill vöxtur og ef horft er á veltutölur út frá skilum á virðisaukaskatti, þá er vöxturinn um 25%. Þetta segir Bjarni Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í samtali við mbl.is. Á sama tíma sýna tölur Hagstofunnar aftur á móti að starfsmannafjöldi í greininni var sá sami árið 2013 og 2014, eða 10.500 manns. Segir hann eitthvað ekki passa í þessari jöfnu.
Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, tekur undir með Bjarna og segir að tölur frá lífeyrissjóðum sýni ekki fram á neina fjölgun starfsmanna í þessum geira. Segir hann að einhver skekkja hljóti að vera í þessum mælingum og að munurinn þarna sé of mikill til að hægt sé að skýra hann með aukinni framleiðni, meiri svartri starfsemi eða framkvæmdum sem eru dýrar en krefjast færri starfsmanna.
„Okkur finnst þetta ekki ganga upp miðað við þessi auknu umsvif,“ segir Bjarni um starfsmannafjöldann í greininni, en samtökin hafa undanfarið verið að skoða þessi mál. Segir hann að verið sé að skoða hvort tölfræðin sé að missa af einhverju og nefnir í því sambandi hvort erlent vinnuafl sem komi til landsins í gegnum starfsmannaleigur gleymist í þessum tölum. Aðspurður hvort um gæti verið að ræða aukna svarta starfsemi eða að vannýtt afkastageta hafi verið nýtt segir hann mögulegt að það útskýri lítinn hluta. „En 15% aukning og engin fjölgun starfa, slíkt gerist ekki á einu ári,“ segir hann.
Samtökin spáðu því fyrir um einu ári að störfum í byggingar- og mannvirkjagerð myndi fjölga um 2-3 þúsund á þessu og næsta ári. Bjarni segir það ekki hafa gengið, enda hafi mörg stærri verkefni setið á hakanum. Aðspurður hvort menn sjái fyrir sér mikla fjölgun á næstunni segir hann að auðvitað sé horft til kísilveranna, sólarkísilverksmiðju og verkefna við flugstöðina sem stórra verkefna á komandi misserum.
Hann segir núverandi ástand þó ekki enn vera þensluvaldandi að neinu viti, þrátt fyrir að mikið sé t.d. byggt af hótelum. Þannig sé íbúðauppbygging t.d. enn talsvert frá því að mæta uppsafnaðri þörf síðustu ára og þá sé mannvirkjagerð og innviðauppbygging enn í lægð. Hann segir það þó alltaf geta breyst og ef allt fari í gang á sama tíma og ríkið slái ekki af, eða að vextir verði ekki hækkaðir, þá sé það ekki ávísun á heilbrigt ástand.
Mikil uppbygging hefur verið hér á landi í ákveðnum geirum byggingariðnaðarins, t.d. í hótelbyggingum. Þorbjörn segir að verði haldið áfram að byggja í ferðaþjónustunni og stóru verkefnin á Grundartanga, Helguvík og Norðausturlandi fari af stað, þá sé engin leið að framkvæma það með innlendu vinnuafli. „Það er bara ekki til,“ segir hann og bætir við að viðbótin verði „meira og minna mönnuð með erlendu vinnuafli“.
Þorbjörn bendir reyndar á að þessi mikla uppbygging í hótelgeiranum geti að einhverju leyti útskýrt jöfnuna sem gekk ekki upp hér að ofan. Segir hann að í mörgum tilfellum séu innréttingar og annað fyrir hótelin flutt inn tilbúið frá Kína og svo þurfi bara að setja það saman hér á landi. Þetta dragi úr vinnuþörfinni og vinna sem áður fór fram hér á landi sé nú unnin erlendis. Þannig fækki störfum, en fjármögnunin sé sú sama eða hækki.