Talsverða athygli vakti á dögunum að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, skyldi gera að því skóna að Leifur heppni Eiríksson hafi verið Norðmaður í yfirlýsingu sinni á dögunum í tilefni af árlegum degi sem tileinkaður er landkönnuðinum þar í landi 7. október. Leifur var fyrstur Evrópumanna til þess að finna meginland Ameríku í kringum árið 1000.
Þannig sagði Obama meðal annars í yfirlýsingunni: „Á degi Leifs Eiríkssonar heiðrum við hann sem mikilvægan hluta af sameiginlegri fortíð okkar með norsku þjóðinni og fögnum þeirri hættulegu en um leið árangursríku ferð sem hann og áhöfn hans tóku sér fyrir hendur fyrir þúsund árum síðan. Fundur Leifs Eiríkssonar markar upphaf mikilvægs vinskapar á milli Noregs og Bandaríkjanna ...“ En var Leifur norskur? Var hann ekki íslenskur?
Sverrir Jakobsson sagnfræðingur svaraði þessari spurningu á Vísindavef HÍ á sínum tíma. Þar bendir hann á þó faðir Leifs, Eiríkur rauði, hafi verið Norðmaður hafi Leifur verið fæddur á Íslandi enda ljóst að Eiríkur kynntist móður Leifs, sem var íslensk, eftir að hann fluttist til Íslands. Fátt bendi ennfremur til annars en að Leifur hafi alist upp hér á landi. Hann fór ennfremur ekki til Noregs fyrr en sem fullorðinn maður þegar hann gekk á fund konungs.
Konungur fól Leifi að gerast kristniboði og sigla til Grænlands og kristna landnám norrænna manna þar sem Eiríkur faðir hans hafði haft forystu um. Leifur tók það verkefni að sér en á leiðinni hraktist hann og skipverjar hans af leið og fundu í kjölfarið meginland Ameríku. Eftir að hafa dvalist þar um tíma héldu þeir áfram til Grænlands. Hafa má í huga í þessu sambandi að á þessum tíma var Ísland sjálfstætt þjóðveldi og ekki hluti af norska konungsríkinu. Íslendingar voru því ekki þegnar Noregskonungs.
Hvort Leifur hafi sjálfur litið á sig sem Íslending er erfiðara að segja og í raun ekkert hægt að fullyrða um að mati Sverris. Hins vegar sé ljóst að í Íslendingasögunum megi finna dæmi þess að fólk hafi verið skilgreint sem íslenskt að minnsta kosti á þeim tíma þegar þær voru ritaðar. Í öllu falli liggur fyrir ef marka má Íslendingasögurnar að Leifur var að öllum líkindum fæddur á Íslandi og ólst þar upp.