Ekki er fyrirhugað að skerða heimaþjónustu eldri borgara í öðrum hverfum Reykjavíkur en í Háaleiti, Laugardal og Bústaðahverfi. Þar fengu sextíu íbúar nýlega tilkynningu um að þeim stæði ekki lengur til boða að nýta sér heimaþjónustu borgarinnar einu sinni til tvisvar í mánuði.
Þjónustumiðstöðina skortir fjármagn sem nemur launum og launatengdum gjöldum tæplega tveggja stöðugilda í heimaþjónustu og því er ekki hægt að veita þjónustuna áfram.
Reykvíkingar sækja þjónustu til sex þjónustumiðstöðva, þ.e. þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarvogs, Breiðholts, Grafarvogs og Kjalarness, Laugardals, Háaleitis og Bústaða, miðborgar og Hlíða og Vesturbæjar.
Frétt mbl.is: Eldri borgarar noti skúringarróbóta
Líkt og mbl.is greindi frá er niðurskurðurinn afleiðing bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar og munu nú aðeins þeir íbúar hverfanna þriggja sem enn dvelja heima og eru veikastir fá aðstoð.
Aðrir verða að leita til ættingja eða kaupa þjónustuna á almennum markaði. Sagði deildarstjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals, Háaleitis og Bústaða að niðurskurðarins gæti orðið vart í öðrum hverfum næstu daga.
mbl.is sendi Reykjavíkurborg fyrirspurn þar sem meðal annars var spurt um fjölda eldri borgara í Reykjavík sem missa þjónustuna á næstu dögum og vikum og hversu margir í heild myndu missa þjónustuna.
„Framkvæmdastjórn þjónustumiðstöðvarinnar tekur sjálf ákvörðun um að forgangsraða fjármagni til þeirra sem þurfa daglega á félagslegum stuðningi að halda og aðstoð við athafnir daglegs lífs, s.s. vegna lyfjagjafa,“ segir í svari Elfu Bjarkar Ellertsdóttur, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar.
Þetta var gert með því að hætta að veita þjónustu þeim eldri borgurum sem eru í þriðja og fjórða flokki, þ.e. einstaklinga sem þurfa einungis þrif og hafa bjargir til að verða sér úti um aðstoð annars staðar frá. „Þetta voru sextíu einstaklingar, sem fengu bréf, og verða ekki fleiri að sinni,“ sagði einnig í svarinu.
„Það er á valdi hverrar þjónustumiðstöðvar fyrir sig að ráðstafa fjármagni sem veitt er til þjónustunnar og forgangsraða samkvæmt reglum þar að lútandi, í samræmi við fjármagn og sem til ráðstöfunar er hverju sinni,“ segir í svari Elfu.
Hún segir að ekki hafi fleiri þjónustumiðstöðvar gripið til þessa ráðs og bendir á að meðalaldur sé hærri í þessum hverfi en öðrum hverfum borgarinnar og því sé þjónustu við eldri borgara mun meiri þar.
Í fyrirspurn mbl.is var einnig spurt hversu mikið fjármagn skorti svo hægt væri að halda áfram að veita þjónustuna. Um er að ræða fjármagn sem nemur launum og launatengdum gjöldum tæplega tveggja stöðugilda í heimaþjónustu.
Deildarstjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals, Háaleitis og Bústaða sagði í samtali við mbl.is að skoða þyrfti ný tæki sem komin væru á markaðinn, t.d. ryksugu- og skúringarróbóta.
„Þetta hefur minna verið tekið í notkun og ætti að geta létt heilmikið þjónustu,“ sagði deildarstjórinn Sigrún Ingvarsdóttir. Bætti hún við að hugsa þyrfti út fyrir rammann því í framtíðinni yrði ekki hægt að sinna heimaþjónustu að öllu leyti vegna hærra hlutfalls eldri borgara.
Að sögn Elfu Bjargar eru engar áætlanir hjá Reykjavík um að útvega öldruðum ryksugu- og skúringarróbóta. Þetta séu, líkt og önnur heimilistæki, tæki sem fólk kaupir sjálft til heimilisins.