Björgunarsveitir og aðrir sem koma að leitinni að Herði Björnssyni funda nú og vega og meta stöðuna en hans hefur verið leitað síðan á miðvikudaginn. Guðbrandur Örn Arnarson, sem stjórnar aðgerðum Landsbjargar, segir að leitað hafi verið fram í myrkur í gær án árangurs.
Tugir björgunarsveitarmanna tóku þátt í víðtækri leit að Herði um helgina, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. „Það er verið að skoða alla mögulega staði,“ segir Guðbrandur í samtali við mbl.is. Leitaraðilar hafa hvatt fólk til þess að skoða nærumhverfi sitt og láta lögreglu vita ef það telur sig hafa séð til Harðar. Fólk á Suðurlandi hefur sérstaklega verið hvatt til þess að hafa augun opin og leita í útihúsum og öðrum byggingum þar sem hann gæti mögulega hafa leitað skjóls.
Hörður er 188 cm á hæð, grannur og með hvítt sítt hár og rautt skegg. Hann sást síðast á Laugarásvegi í Reykjavík aðfaranótt miðvikudagsins. Almenningur er beðinn að athuga sitt nánasta umhverfi.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Harðar eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000.