Ný tölvukerfi gætu sparað milljarða

Friðrik Þór Snorrason forstjóri Reiknistofu bankanna
Friðrik Þór Snorrason forstjóri Reiknistofu bankanna Ómar Óskarsson

Endurnýjun á grunnkerfum Reiknistofu bankanna (RB) er með stærri fjárfestingum sem farið hefur verið í í upplýsingatækni hér á landi og koma tæplega 200 starfsmenn að breytingunni hjá RB, Íslandsbanka, Landsbankanum og hjá erlenda fyrirtækinu Sopra sem sér um innleiðingu kerfisins. Þetta segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB, í samtali við mbl.is. Þegar horft er á heildarumfang verkefnisins hleypur það á hundruðum milljóna. Gert er ráð fyrir að breytingin verði tekin í gagnið um mitt næsta ár. Í fyrstu mun þessi breyting ekki hafa mikil áhrif á viðskiptavini bankanna, en til lengri tíma litið mun þetta auðvelda alla þróun á vörum sem bankarnir bjóða upp á, auðvelda innleiðingu á nýjum hlutum hjá RB og líklega lækka upplýsingatæknikostnað bankakerfisins til muna.

Gömlu grunnkerfin endurnýjuð

Friðrik segir að um tvíþætt umbreytingaverkefni sé að ræða. Í fyrsta lagi sé búið til alveg nýtt tengilag fyrir fjármálamarkaðinn við kerfi RB. Þetta sé svokallað þjónustu- og gagnatorg RB. Segir hann ávinninginn af þessu þann að auðveldara sé að þróa kerfið og tengja kerfi þriðja aðila við það, sem og ný kerfi viðskiptavina.

Hinn þátturinn er að skipta út gömlum gunnkerfum hjá RB, en í þessum áfanga felur það í sér endurnýjun á innlána- og greiðslukerfum. Þau kerfi hafa undanfarna áratugi haldið utan um reikninga fólks og millifærslur, en verða sett til hliðar fyrir nýja kerfið. „Þetta er nútímavæðing á grunnkerfunum við RB og þjónustur og gögn verða aðgengilegri,“ segir Friðrik og bætir við að sú stöðlun sem sé verið að innleiða auðveldi alla nýsmíði og tengingar í framtíðinni.

Úr stórtölvum yfir í dreift umhverfi

RB var stofnað árið 1973 og voru öll kerfi byggð upp í svokölluðu stórtölvuumhverfi (e. mainframe). Það þýðir að stórar og öflugar tölvur voru notaðar sem þjónar fyrir tölvukerfinu. „Í dag erum við að flytja okkur yfir í dreift umhverfi, það er mun sveigjanlegra kerfi,“ segir Friðrik. Segir hann að í stað þess að vinnslan sé á fáum stórum tölvum verði vinnslunni með þessu dreift á milli margra netþjóna. Til viðbótar við það verður mikil breyting á hvernig gögn eru send á milli og segir Friðrik að það og betra aðgengi að gögnum muni þegar framlíða stundir hjálpa greiningardeildum og áhættustýringum að fylgjast með stöðu bankanna.

Friðrik segir að þegar auðveldara verði að byggja ofan á grunnkerfið geri það bönkunum líka kleift að framkvæma nýja hluti á auðveldari hátt. Sem dæmi nefnir hann að þetta gæti í framtíðinni hjálpað mikið við að búa til meiri sjálfvirkni við greiðslumat og yfirferð þess. Þá muni þetta auðvelda bakvinnslum bankanna alla vinnu.

Gæti lækkað rekstrarkostnað um milljarða á hverju ári

„Meginmarkmiðið er að gera bönkunum kleift að lækka upplýsingatæknikostnað sinn,“ segir Friðrik, en hann er talinn vera um 20-25% af heildarrekstrarkostnaði bankanna í dag. Segir hann að á næstu fimm árum sé stefnan sett á að lækka hann um þriðjung, eða niður undir 15%. „Það verður hægt að losa sig við mikið af virkni sem hefur verið sérsmíðuð og erfitt hefur verið að viðhalda undanfarna áratugi,“ segir hann.

Við undirritun samninga við Sopra.Talið frá vinstri Eric Pasquier, forstjóri …
Við undirritun samninga við Sopra.Talið frá vinstri Eric Pasquier, forstjóri bankaarms Sopra, Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB, og Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. Ómar Óskarsson


Heildar upplýsingatæknikostnaður fjármálastofnana hér á landi er í dag um 15-17 milljarðar á ári og ef hægt er að lækka hann um þriðjung geta það verið upphæðir um og jafnvel yfir 5 milljarðar á ári.

Með breytingu á innlánakerfinu var til skoðunar að gera breytingar á öllum bankareikningsnúmerum. Friðrik segir að það hafi verið til skoðunar, en verði látið bíða að svo stöddu, en nýtt kerfi styður það að hægt sé að hafa aðra uppbyggingu á reikningsnúmerum.

Verður klárt um mitt næsta ár

Verkefnið hófst í apríl 2014 með forgreiningu sem gerð í samstarfi við erlenda hugbúnaðarfyrirtækið Sopra. Metnir voru kostir þess að taka upp annað grunnkerfi og var ákveðið að hefja þá vinnu. Sjálft innleiðingarverkefnið hófst í mars á þessu ári, en útlit er fyrir að þróunarfasa ljúki seinna á þessu ári. Þá taka við ítarlegar prófanir og svo innleiðing þegar líður á næsta ár. Friðrik segir að það fari aðeins eftir sumarfríum hvoru megin við sumarið það ferli verði klárað.

Verkefni upp á hundruð milljóna

Heildarbreyting eins og þessi er ekki eitthvað sem er hlaupið til og gerð í flýti. „Þetta eru kerfi sem þú skiptir ekki út á nema 10-15 ára fresti,“ segir Friðrik, en gífurleg vinna og kostnaður liggur á bak við verkefnið. „Þetta er með stærri fjárfestingum sem farið er í í upplýsingatækni hér á landi, hvort sem horft er fram á við eða aftur,“ segir hann.

Hjá RB koma um 70 manns að verkefninu á verktímanum og Friðrik segir að hjá hvorum banka fyrir sig megi gera ráð fyrir að á fjórða tug starfsmanna komi að því á einhverjum tímapunkti. Þá séu vel á annan tug sem vinni hjá Sopra við þetta verkefni. Innleiðingin hefur staðið yfir frá því mars 2015 og mun að öllum líkindum taka eitt og hálft ár. Segir Friðrik að heildarkostnaður RB og bankanna vegna verksins hlaupi á hundruðum milljóna á verktímanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert