„Nei, satt að segja kemur þetta mér ekki á óvart en ég hefði viljað, eins og Ungir jafnaðarmenn, að hann hefði ákveðið að hleypa öðrum að í þetta skipti,“ segir Eva Indriðadóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, um fregnir þess efnis að Björgvin G. Sigurðsson hafi tekið sæti Oddnýjar G. Harðardóttur á Alþingi.
Ungir jafnaðarmenn ítrekuðu í dag ályktun sína frá því í janúar sl., þar sem þeir hvöttu Björgvin til að stíga til hliðar sem varaþingmaður Samfylkingarinnar. Björgvin viðurkenndi í janúar að hafa ráðstafað fé í eigu Ásahrepps í eigin þágu án heimildar þegar hann var sveitarstjóri.
Að sögn Evu hafa Ungir jafnaðarmenn ekki fengið viðbrögð frá flokknum vegna ályktunarinnar í dag, en þegar hún var birt á sínum tíma voru flestir á því að ungliðahreyfingin hefði gengið of langt í að vega að Björgvini.
Eva gefur hins vegar ekkert eftir og segir þingmanninn verða að vinna sér inn traust flokksfélaga og almennings.
„Við vitum að það eru ekki allir okkur sammála. En þetta er okkar afstaða og við tökum okkar hlutverk sem aðhald að flokknum alvarlega. Og það er það sem ungliðahreyfingar þurfa að gera. Þær þurfa svolítið að segja hlutina eins og þeir eru og ekki vera hræddar við að tala um óþægileg mál,“ segir Eva.
Ályktun Ungra jafnaðarmanna, birt 20. janúar 2015:
„Ungum jafnaðarmönnum er brugðið vegna frétta sem berast af varaþingmanni Samfylkingarinnar, Björgvini G. Sigurðssyni. Björgvin fór ranglega með opinbera fjármuni í starfi sínu sem sveitarstjóri Ásahrepps og brást þar með trausti almennings.
Mikilvægt er að skattgreiðendur standi í vissu um að opinberir fjármunir séu aðeins notaðir í almannaþágu en renni ekki í vasa opinberra starfsmanna. Í því samhengi skiptir ekki máli hvort að fjármunir eigi að stoppa þar við í styttri eða lengri tíma. Í ljósi þessa hvetja Ungir jafnaðarmenn Björgvin til að stíga til hliðar sem varaþingmaður Samfylkingarinnar uns hann nýtur aftur trausts flokks síns og almennings.
Að lokum vilja Ungir jafnaðarmenn óska Björgvini góðs bata og velfarnaðar.“