Boðað hefur verið til meðmælagöngu undir heitinu „Verið velkomin!“ í Laugarneshverfi á fimmtudagskvöld til þess að styðja móttöku flóttafólks á Íslandi og bjóða það velkomið til landsins. Til göngunnar boða Breytendur á adrenalíni, æskulýðshópur í Laugarneskirkju sem hefur það að markmiði að beita sér fyrir mannréttindum.
Lagt verður af stað frá Frú Laugu við Laugalæk kl. 19:30. Þaðan liggur leiðin í gegnum hverfið og að Laugarneskirkju þar sem haldnir verða stuttir tónleikar og ungt fólk mun kveða sér til hljóðs. Meðal þeirra er Laura Telati, nemandi í Laugalækjarskóla og heilisleitandi frá Albaníu.
Nýlega synjaði Útlendingastofnun umsókn fjölskyldu Lauru um hæli á Íslandi. Hjalti Jón Sverrisson, verkefnastjóri æskulýðsmála í Laugarneskirkju, segir viðbrögð hópsins ekki hafa staðið á sér eftir það. „Þennan dag fóru allir á Facebook og vildu breytingar. Fyrst Útlendingastofnun telur sig fara að lögum þá þarf einfaldlega að breyta lögunum. Þetta atvik var eins og sandkornið sem fyllti mælinn og þau vilja sýna með þessu samhug sinn með flóttafólki, en fyrst og fremst vilja krakkarnir beita sér fyrir breyttum áherslum í samfélaginu.“
Hjalti segir hópinn beita sér fyrir því að gera heiminn að betri stað með hverju því litla sem þau hafi úr að moða. Áherslan sé oft á nærumhverfið og hópurinn hefur til dæmis áður farið í meðmælagöngu í nafni trúfrelsis í vetur og skreytt hverfið með litríkum, árituðum steinum með hvetjandi skilaboðum.
„Breytendur á adrenalíni er í raun þvertrúarleg mannréttindahreyfing sem samanstendur af krökkum í 9. bekk og eldri og það sem er sérstakt við þennan hóp að innan hans fer ekki fram nein boðun í bæn en við ræðum og látum okkur varða trúarbrögð almennt og fjöllum um þau mál sem tengjast því að vera manneskja í þessum heimi og allt sem því fylgir,“ segir Hjalti.