Þyngri refsingar hafa ekki komið í veg fyrir mikla fjölgun fíkniefnabrota hér á landi. Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti við Háskóla Íslands, segir ekki hægt að einblína á refsivörslukerfið, sem sé á heljarþröm, til að taka á fíkniefnabrotum heldur þurfi að nálgast það samfélagsvandamál með heildstæðari hætti.
Jón Þór var einn þeirra sem kom fyrir allsherjarnefnd Alþingis á morgun til þess að ræða refsiramma í fíkniefnamálum. Mikil umræða hefur sprottið upp um hann í kjölfar þess að hollensk kona sem segist hafa verið burðardýr var dæmd í ellefu ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnasmygl í Héraðsdómi Reykjaness í þar síðustu viku.
Meðalþyngd fangelsisrefsinga vegna fíkniefnabrota hefur margfaldast hér á landi undanfarna áratugi. Jón Þór segir að á 8. áratug síðustu aldar hafi meðalþyngd refsinga í fíkniefnamálum verið 0,21 ár. Á 9. áratugnum var fangelsistíminn kominn upp í 0,86 ár en á milli áranna 2006 og 2010 hafi meðalþyngd refsinganna náð 3,55 árum.
Þrátt fyrir þetta virðist aldrei hafa verið meira um fíkniefni en síðustu ár. Þetta sést meðal annars á því að þrátt fyrir þessa vaxandi refsigleði hefur þeim fjölgað sem afplána dóma vegna fíkniefnabrota. Árið 1981 sat 21 fangi í fangelsi vegna fíkniefnamála en árið 2006 voru þeir orðnir 112.
Hlutfall þeirra sem afplána fangelsisvist vegna fíkniefnabrota hefur einnig margfaldast. Þannig voru 10% þeirra fanga sem hófu afplánun árið 1994 þar vegna fíkniefnabrota. Nú segir Jón Þór að um þriðji hver fangi afpláni refsingu vegna fíkniefnamála.
Jón Þór bendir á að dómur Hæstaréttar í fyrsta e-töflumálinu sem kom til kasta dómstóla hér á landi árið 1997 hafi hrundið af stað þyngri refsingum í fíkniefnamálum. Þá var maður dæmdur í sex ára fangelsi fyrir innflutning á tæplega 1.000 e-töflum og var vísað sérstaklega til þess að efnin væru þau hættulegustu sem borist hefðu til landsins. Þá var hámarksrefsing sem unnt var að dæma til vegna fíkniefnabrota tíu ár en þyngsti dómurinn fram að því fjögur ár. Refsimörkin voru hækkuð upp í tólf ár árið 2001.
„Þar sem þetta væru hættulegustu efnin ætlaði Hæstiréttur greinilega að senda út skilaboð í samfélagið á þá leið að það yrði tekið gríðarlega þungt á innflutningi á þessum efnum. Í þeim dómum sem komu í kjölfarið var vísað til þessa máls um hversu hættulegt efnið væri. Þessi dómur varð fordæmisgefandi um hvernig ætti að refsa fyrir MDMA-brot, innflutning á fíkniefnum. Þannig fer þessi skriða af þyngingu refsinga af stað,“ segir Jón Þór
Ári eftir dóminn var skráður fjöldi fíkniefnabrota í málaskrá lögreglu 713. Árið 2006, rétt tæpum áratug eftir dóminn voru málin hins vegar 2.098, nærri því þreföldun á fjölda mála þrátt fyrir harðar hafi verið refsað fyrir þau á þessum árum en áður.
Því er ljóst að þyngri refsingar hafa ekki komið í veg fyrir mikla fjölgun fíkniefnabrota. Jón Þór segir að líta þurfi á vandann með heildstæðari hætti.
„Það þarf að skoða málaflokkinn upp á nýtt. Refsivörslukerfið leysir aldrei þennan vanda. Hann þarf að hugsa í stærra og víðara samhengi en að horfa bara í refsingarnar. Það þarf að skoða út frá sjónarmiðum heilbrigðisþátta og finna leiðir til að aðstoða menn út úr vandanum en ekki búa til stærri og frekari vandamál. Þetta er ekki bara vandi refsivörslukerfisins. Þetta er vandi samfélagsins í heild og það þarf að taka á honum þannig, ekki bara einblína á refsivörslukerfið. Vandamálið núna er stærra og meira en áður,“ segir Jón Þór.
Refsivörslukerfið á Íslandi á mjög undir högg að sækja um þessar mundir, að mati Jóns Þórs. Vegna plássskorts bíði fimm hundruð manns eftir því að hefja afplánun refsingar, fjöldi dóma hafi fyrnst, dómstólar og ákæruvald séu að kikna undan álagi, fangelsin séu yfirfull og vistun í þeim þjóni ekki sem sú betrunarvist sem henni er ætluð að vera enda fá fangar ekki þá sérfræðiþjónustu sem þörf er á, meðal annars að því er varðar sálræna þætti.
Pyntingarnefnd Evrópuráðsins hafi gert fjölda athugasemda við vistun íslenskra fanga og
og Jón Þór segir það grafalvarlegt að mörg dæmi séu um að þeir sem eigi við alvarlegar geðraskanir að stríða séu vistaðir í fangelsum landsins. Það myndi teljast ómannleg eða vanvirðandi refsing í skilningi mannréttindasáttmálans.
„Þess vegna segi ég að þetta kerfi er alveg á heljarþröm. Það er gjörsamlega undirmannað og fjársvelt. Það skortir oft á sérþekkinguna og það er alltaf verið að setja á flatan niðurskurð. Það verður að greina vandamálið í heild sinni og reyna að nýta þá peninga sem fara inn í kerfið með sem bestum hætti,“ segir Jón Þór.
Þá hafi ýmsir fræðimenn bent á að hertar refsingar geti hreinlega fjölgað fíkniefnabrotum. Með þyngri refsingum aukist áhætta þeirra sem sýsla með fíkniefnin, þeir geti hækkað verð á efnunum og þannig haft meira upp úr þeim. Umhverfið verði einnig harðara enda liggi meira undir hjá brotamönnunum.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, segir að tilgangur umræðunnar á fundi hennar í morgun hafi verið að upplýsa nefndarmenn um dóma og löggjöf í fíkniefnamálum. Auk Jóns Þórs kom meðal annars ríkissaksóknari og fulltrúar frá innanríkisráðuneytinu fyrir nefndina. Þar hafi meðal annars komið fram að ekki væri hugað að neinum sérstökum breytingum á lagaumhverfinu að svo stöddu.
Vilji væri fyrir því innan nefndarinnar að skoða umhverfið betur og segist Unnur Brá sjálf hafa mestan áhuga á að vita hvers vegna löggjöfin um fíkniefnabrot sé öðruvísi hér á landi en annars staðar. Ekki hafi verið ákveðið hvort að nefndin muni fjalla frekar um refsiramma fíkniefnabrota á næstunni.