Gagnrýndi afslátt á stöðugleikaskattinn

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að tilboð kröfuhafa Glitnis um að skila hlutabréfunum í bankanum sýni að það sé mat erlendra kröfuhafa að stöðugleikaskatturinn sé lögmætur og haldi. Þess vegna reyni þeir með öllum ráðum að fá frá honum afslátt.

Helgi gagnrýndi afsláttinn og sagði stöðugleikaskattinn skila mikið hærri fjármunum en þeir samningar sem ríkisstjórnin hefur verið að reyna við kröfuhafana.

Fyrri frétt mbl.is: Ríkið eign­ast Íslands­banka að fullu

„Það er alveg ljóst að stöðugleikaskatturinn mun að óbreyttu skila miklu hærri fjármunum en þessir samningar sem ríkisstjórnin hefur verið að reyna við kröfuhafana. Og fyrst það er mat kröfuhafanna og þeir koma fram með hvert tilboðið á fætur öðru til að reyna að fá afslátt frá þessum stöðugleikaskatti hljótum við líka að spyrja hvers vegna eigi að gefa afslátt í öðrum bönkum en Glitni,“ sagði Helgi og bætti við að hjá slitastjórn gamla Landsbankans kæmi það þannig fram að stöðugleikaskatturinn sem þrotabúið eigi að greiða nemi 146 milljörðum.

Vitnaði Helgi í frétt RÚV frá því fyrr í mánuðinum en fréttastofan sagðist hafa heimildir fyrir því að slitastjórnin hafi lagt til að greiddir yrðu 14 milljarðar í stöðugleikaframlag.

„Þýðir það að það slitabú eigi að fá 90% afslátt frá stöðugleikaskattinum? Eða eiga kröfuhafarnir í Kaupþingi að halda hlutabréfunum í Arion banka?“ spurði Helgi og kallaði eftir því að lagðar yrðu fram upplýsingar . Sagði hann einnig að þingi og þjóð þyrfti að vera gerð grein fyrir því „hvað er verið að höndla um hér í bakherbergjum og hvaða efnislegu röksemdir eru fyrir því að veita þá stóru afslætti frá stöðugleikaskattinum sem augljóslega er verið að vinna að.“

„Þetta er algerlega óþolandi“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, var næstur í pontu. Hann sagði „fullkomlegt ógagnsæi“ ríkisstjórnarinnar og „möndl hennar með kröfuhöfum bak við luktar dyr“ mikið áhyggjuefni sem veki spurningar um hvert Ísland væri að fara. Gagnrýndi hann það einnig að tillaga kröfuhafana hafi birst á vef fjármálaráðuneytisins klukkan 4 að næturlagi og sagði það undirstrika hversu lokað þetta mál er.

Steingrímur nefndi einnig sölu Arion banka á hlutafé í Símanum og sölu lífeyrissjóða á eignasöfnum án auglýsinga í þessu samhengi.

„Ætli það sé ekki allvíða óbragð í munni manna eftir sölu Arion banka fyrir fram á hlutafé í Símanum á vildarkjörum til góðvina sinna? Minnir þetta ekki á ýmislegt sem við héldum að ætti ekki að endurtaka sig á Íslandi?“ spurði Steingrímur.

Hann sagði að Arion banki væri „ekki bara öllum megin við borðið, hann er ofan á því og undir því líka. Það er Arion banki. Arion banki á hlut í seljandanum. Arion banki á hlut í kaupandanum. Arion banki, eða Fyrirtækjaráðgjöf hans, sáu um söluna og Arion banki fjármagnaði kaupin. Verður það fullkomnara en þetta?“

Steingrímur sagði að það veki hroll hjá honum að sjá í hvaða átt þessi mál eru að fara. „Þetta er ekkert annað en 2007-siðmengunin sem er að læðast aftan að okkur á fullri ferð og ríkisstjórnin er þar ekkert betri en aðrir með sínum vinnubrögðum bak við luktar dyr og fara þó þar fyrir þeir menn sem sennilega hafa haft stærstu orðin af öllum í lýðveldissögunni um mikilvægi gagnsæis hér í þessum sal á síðasta kjörtímabili.“

Hann sagði ekki seinna vænna að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbankastarfsemi. „Bankarnir, eða Arion banki í þessu tilviki, eru að misnota það að geta möndlað bæði með eignir og eignasöfn sem þeir hafa í höndunum, rekið fyrirtækjaráðgjöf og verið svo viðskiptabanki og fjármagnað viðskipti af þessu tagi. Þetta er algerlega óþolandi og nú stendur upp á stjórnvöld að gera eitthvað í þessum efnum.“

Fyrri frétt mbl.is: Ríkisstjórnin eins og „útspýtt hundsskinn“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka