Þjóðin upplifi þetta ekki aftur

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli

Tæplega tuttugu sjúklingar sem hafa verið innritaðir á bráðamóttöku Landspítalans liggja í viðtalsherbergi og á göngum bráðamóttökunnar þar sem ekki hefur verið hægt að koma þeim fyrir á öðrum deildum vegna verkfalls SFR og sjúkraliða. Forstjóri Landspítalans segir að ástandið hafi verið mjög alvarlegt í gær og hafi lítið batnað.

„Ég verð að segja að ég vona nú að við á Landspítalanum og þjóðin eigi ekki eftir að upplifa það aftur í manna minnum að hér sé heilt ár sem er undirlagt af hverju verkfallinu á fætur öðru. Það er mikil guðs mildi að ekki hefur orðið stór skaði af þessu,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Alvarlegt ástand á Landspítala

Verkfall SFR og sjúkraliða stendur enn yfir og lýkur þessari lotu á miðnætti hafi samningar ekki tekist þá. Næsta lota hefst á miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 29. október og stendur í tvo sólarhringa.

Starfsmenn SFR á Landspítalanum eru í ótímabundnu verkfalli og þá verða sjúkraliðar á LSH, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun í verkfalli frá kl. 8 – 16 á morgun, fimmtudag og föstudag.

Næsti fundur í kjaradeilu SFR, sjúkraliða og lögreglunnar er í dag og hefst hann kl. 14. 

Geta ekki axlað byrðirnar ein

„Staðan í gær og í gærkvöldi var mjög alvarleg á bráðamóttökunni. Allt var fullt og meira en það og ástandið var ákaflega erfitt. Það var erfitt að koma alvarlegu fólki inn á deildir þar sem þar eru þegar margir á fleti,“ segir Páll og bætir við að umrætt fólk þurfi sannarlega á innlögn að halda.  

Ástandið versnaði ekki á bráðamóttökunni í nótt og í morgun en hefur þó að sögn Páls ekki batnað mikið og eru allar deildir fullar. „Sem betur fer er samstarfið við undanþágunefnd verkfallsins mjög gott og það hjálpar. Þegar neyð er og þarf að opna meira þar sem allt er fullt þá er hægt að sækja um og þeim umsóknum hefur verið tekið vel. Hins vegar þá sjáum við það að bæði í heimahjúkrun og heilsugæslu þar sem þarf að styðja fólk svo það þurfi ekki innlögn að þar skortir töluvert upp á,“ segir Páll.

„Einnig sjáum við það á sjúkrahúsum í kring sem ættu að geta tekið fólk, sérstaklega úr sinni heimabyggð, að þar hefur skort upp á undanþágur svo þær stofnanir geti unnið á fullum afköstum. Þetta er samofin keðja og við þurfum að koma upplýsingum um fólk sem við viljum útskrifa til þeirra svo þau hafi gögn til að sækja um undanþágur og þetta er bara flókið mál sem við erum að vinna í. Við getum ekki axlað þessar byrðir ein.“

 „Þetta gengur illa hjá okkur vegna þess að aðrar stofnanir eru að líða fyrir verkfallið, þau vita ekki af fólkinu sem er hjá okkur. Við þurfum að senda gögn til þeirra svo þau geti sótt um undanþágu. Þetta er þungt, það er alltaf auka liður í þessu öllu saman að sækja um undanþágur. Við erum að vinna í þessu, þetta er bara erfið staða og flókin vél þetta heilbrigðiskerfi,“ segir Páll.

Þjóðin upplifi þetta ekki aftur

„Ég verð að segja nú að ég vona nú að við á Landspítalanum og þjóðin eigi ekki eftir að upplifa það aftur í manna minnum að hér sé heilt ár sem er undirlagt af hverju verkfallinu á fætur öðru. Það er mikil guðs mildi að ekki hefur orðið stór skaði af þessu,“ bætir Páll við.

„Þetta er orðið miklu meira en nóg og þar er ég ekki að gera lítið úr rétti fólks til að berjast fyrir kjarabótum. En það verður að fara einhverja leið til þess að draga úr líkum á því að allt endi í verkföllum, trekk í tekk. Þar held ég að allir aðilar beri ábyrgð.“

Hvar eru sjúklingarnir sem voru innritaðir á bráðamóttöku í gær og í gærkvöldi og bíða eftir að komast á aðrar deildir?

„Þeir liggja bara í rúmum á göngum bráðamóttökunnar og fylla viðtalsherbergið þar sem venjulega er rætt við fólk sem á að sinna. Í staðinn sinnum við þeim sem eru minna veikir frammi á gangi. Þetta er ekki æskilegt ástand,“ segir Páll að lokum.

Ástandið er erfitt að Landspítalanum. Hvert verkfallið á fætur öðru …
Ástandið er erfitt að Landspítalanum. Hvert verkfallið á fætur öðru hefur dunið á starfsfólkinu og sjúklingum síðasta árið. mbl.is/Lára Halla
Áhrifa verkfallsins gætir víða, meðal annars á heilsugæslustöðvum.
Áhrifa verkfallsins gætir víða, meðal annars á heilsugæslustöðvum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert