Flóabandalagið skrifaði í gær undir nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Samningurinn tekur til um tvö þúsund félagsmanna í Flóabandalaginu, sem samanstendur af Eflingu í Reykjavík, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur.
Kjarasamningurinn er sambærilegur við nýjan kjarasamning félaganna við ríkið og einnig var tekið mið af niðurstöðu gerðardóms. Hann gildir afturvirkt frá 1. maí 2015 til 31. mars 2019. Í Morgunblaðinu í dag segir, að kjarasamningurinn feli í sér verulegar launahækkanir við upphaf samnings þar sem launataxtar hækka um 25.000 kr. eða að meðaltali um 9,78%.