Meðalverð á eldsneyti það lægsta síðan 2009

Meðalverð á bensíni án afsláttar hefur ekki verið lægra síðan árið 2009. Fyrir vikið hefur eldsneytiskostnaður heimila lækkað verulega. Minnkandi eldsneytisnotkun nýrra bifreiða dregur frekar úr kostnaðinum.

Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) er meðalverð á 95 oktana bensíni það sem af er ári 217,99 krónur án afsláttar, en var til samanburðar 217,45 krónur árið 2009 á verðlagi nú. Til samanburðar varð meðalverðið hæst árið 2012, eða tæplega 278 krónur á lítrann.

Heimsmarkaðsverð á olíu hrundi síðsumars og hefur útsöluverð á bensíni því lækkað mikið á síðari hluta ársins. Verð á bensíni með afslætti lækkaði um rúmar 3 krónur í gær og kostaði þá 196,5 krónur.

Verður líklega lægra en 2009

Haldist olíuverðið nokkuð stöðugt á síðustu mánuðum þessa árs mun meðalverðið á bensíni verða lægra en árið 2009. Mun þá þurfa að fara aftur til ársins 2007 til að finna jafn lágt meðalverð á bensíni á Íslandi.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir ástæðu þess að hér er miðað við fullt verð í þjónustu án afsláttar vera þá að bensín hafi ekki verið komið í almenna sjálfsafgreiðslu í upphafi tímabilsins sem hér er skoðað, frá 1997 til 2015. Verðið á eldsneyti á stærstum hluta þessa tímabils, m.t.t. til afsláttar, hefur því verið talsvert lægra. Má þar nefna að nú kostar bensínlítrinn hjá Atlantsolíu 183,5 kr. með 13 kr. afslætti til handhafa dælulykils á tilboðsdögum. Miðað við fullt verð á bensíni með þjónustu hefur eldsneytiskostnaður heimila lækkað mikið milli ára.

Úr 276 þúsund í 241 þúsund

Sé miðað við að einstaklingur aki 13 þúsund kílómetra á bíl, sem eyðir 8,5 lítrum á hverja hundrað kílómetra, hefur kostnaðurinn þannig lækkað úr tæpum 276 þúsund krónum í fyrra í tæplega 241 þúsund kr. í ár, eða um 35 þúsund kr. Hjá fjölskyldu sem ekur samtals 18 þúsund kílómetra er munurinn enn meiri. Kostnaðurinn var 382 þúsund kr. í fyrra borið saman við 334 þúsund í ár, sem er 48 þúsund króna munur.

Sparnaður einstaklinga af lækkun bensínsverðs er enn meiri ef þetta ár er borið saman við árið 2012. Þá munar um 84 þúsund krónum og rúmlega 116 þúsund krónum hjá fjölskyldum. Reiknað er með að nýir bílar hafi notað 9 lítra á hverja ekna 100 kílómetra árið 2012.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka