Ekki velta vandanum á komandi kynslóðir

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að það sé grundvallaratriði að almenningi, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum hér á landi verði hleypt út úr gjaldeyrishöftum á sama tíma og erlendum kröfuhöfum, þ.e. verði samið við þá og þeim veittur afsláttur frá stöðugleikaskatti.

Þetta sagði Helgi í umræðum um störf þingsins.

Hann sagði ennfremur, að það væri annað grundvallaratriði að greiðslujöfnunarvandinn yrði leystur en ekki frestað um sjö til tíu ár.

„Ef við leysum ekki vandann hér og núna þá erum við bara að velta honum yfir á framtíðina og næstu kynslóðir.“

Helgi benti á, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði í sjöttu eftirfylgniskýrslu sinni, sem kom út í júní, sagt að miklar vætingar væru um afnám gjaldeyrishafta. Það væri hins vegar takmarkað svigrúm til að létta af snjóhengjunni svokölluðu. Vegna launahækkana, verðbólgu og aukins viðskiptahalla gæti það svigrúm takmarkast enn frekar.

„Þessi orð minna okkur á að það verður að ganga vel og tryggilega úr skugga um það að fyrir hendi séu langtímaáætlanir um það að afsláttur og samningar tryggi jafngilda lausn eins og stöðugleikaskatturinn gerir. Því ef að við höfum ekki á borðinu jafngilda lausn og stöðugleikaaskatturinn er í samningum við erlenda kröfuhafa, þá eigum við að taka skattinn en ekki velta því sem á vantar á komandi kynslóðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert