Vilja lengja fæðingarorlofið

Samkvæmt frumvarpinu yrði fæðingarorlofið lengt úr níu mánuðum í tólf.
Samkvæmt frumvarpinu yrði fæðingarorlofið lengt úr níu mánuðum í tólf. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Níu þingmenn Samfylkingar hafa lagt fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að fæðingarorlof verði lengt úr níu mánuðum í tólf og mánaðarleg hámarksgreiðsla hækkuð. Lagt er til að sjálfstæður réttur hvers foreldris til fæðingarorlofs verði fimm mánuðir og að sameiginlegur réttur foreldra verði tveir mánuðir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að árið 2013 hafi verið fallið frá því að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði vegna breyttrar forgangsröðunar í ríkisfjármálum, en þá var hámarksfjárhæð hækkuð um 20.000 krónur í 370.000 krónur frá og með 1. janúar 2014. Sú fjárhæð hafi ekki verið hækkuð síðan og ekki sé gert ráð fyrir hækkun hennar í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár.

Í frumvarpinu er miðað að því að hækka upphæðina úr 370.000 krónum í 500.000 krónur frá 1. janúar 2016, en að lenging orlofsins verði innleidd í áföngum.

„Afleiðingar lækkunar hámarksfjárhæðarinnar hafa verið þær að sífellt færri feður taka fæðingarorlof þar sem tekjur þeirra eru að jafnaði hærri en tekjur mæðra,“ segir í greinargerðinni með frumvarpinu. „Þróun fæðingarorlofstöku hefur verið þannig að hlutfall feðra sem tók fæðingarorlof var 90,9% árið 2008 en var komið niður í 78,3% árið 2014. Þessari þróun er nauðsynlegt að snúa við til að tryggja samvistir barna við báða foreldra á fyrsta æviárinu, jafna stöðu karla og kvenna og til að stuðla að auknum lífsgæðum barnafjölskyldna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert