Ekki landsfundur deilna og átaka

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins Ómar Óskarsson

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn nú um helgina. Fundurinn hefst á morgun, föstudaginn 23. október, kl. 10 og lýkur á sunnudag kl. 16 með ávarpi formanns og fundarslitum.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur að jafnaði hafist síðdegis á fimmtudagi með setningarræðu formanns og hátíðardagskrá, en nú hefur fundurinn verið styttur og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flytur ræðu sína á morgun kl. 16.30, en frá kl. 10 í fyrramálið verða fundir málefnanefnda og drög að stjórnmálaályktun kynnt.

Samkvæmt upplýsingum Þórðar Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, er von á að 1.100 til 1.200 fulltrúar mæti á landsfundinn, en liðlega 1.500 manns eiga rétt til fundarsetu.

„Það var einkum verið að taka tillit til landsfundarfulltrúa af landsbyggðinni, þegar ákveðið var að fundurinn hæfist ekki fyrr en að föstudagsmorgni,“ sagði Þórður í samtali við Morgunblaðið.

Ekki mikil eftirvænting

Ef má marka samtöl við ákveðinn fjölda landsfundarfulltrúa ríkir ekki mikil eftirvænting eða spenna vegna landsfundarins og menn/konur virðast eiga erfitt með að gera sér grein fyrir því hvort einhver sérstök átakamál komi upp á fundinum og þá hver þau verði.

„Mín tilfinning fyrir þessum landsfundi er sú að hann verði ekki fundur mikilla átaka, sveiflna eða uppgjörs á neinn hátt. Það verða að venju einhverjar pólitískar skylmingar um orðalag o.þ.h., en það kæmi mér á óvart ef um stórátök yrði að ræða um einhver grundvallarstefnumál,“ segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ég á von á því að þetta verði fremur rólegur fundur og ég sé ekki að einhver stór átakamál verði í brennidepli,“ segir landsfundarfulltrúi. Undir þessi orð taka flestir viðmælendur.

Annar telur að gera megi ráð fyrir átökum um Evrópustefnu flokksins, þar sem ákveðinn hópur fulltrúa muni vilja kveða sterkar að orði í ályktun um að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins, en aðrir segja að ESB-málin séu komin út af borðinu. Þetta verði bara hluti af hefðbundnum átökum á landsfundi.

Enn annar segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé í sérstakri stöðu nú. „Hann er annars vegar með mjög sterka stöðu á sveitarstjórnarstiginu, fyrir utan Reykjavík, en hins vegar með sögulegt lágmark í fylgistölum á landsvísu, samkvæmt skoðanakönnunum. Því er flokkurinn í ákveðinni fylgiskrísu,“ segir hann.

Viðmælendur benda á að hér séu miklar andstæður á ferð, því verkefni Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn gangi vel, þótt fylgi flokksins samkvæmt skoðanakönnunum endurspegli ekki þá staðreynd. Erfitt sé að trúa því að staðreyndir eins og hallalaus fjárlög, aukinn kaupmáttur, efnahagslegur stöðugleiki, sem geti að vísu verið brothættur vegna óvissu á vinnumarkaði, skattalækkanir og afnám tolla og vörugjalda eigi ekki eftir að skila aftur umtalsverðu fylgi og sjálfstæðismenn „skili sér heim á nýjan leik“, eins og einn orðaði það.

„Ég held það gildi hið sama um Sjálfstæðisflokkinn og aðra rótgróna flokka, að þeir eru svolítið leitandi, þeir eru að reyna að finna fjölina sína og átta sig á því hvernig þeir eiga að spila úr þeim aðstæðum sem þeir eru í einmitt núna,“ segir þingmaður flokksins.

Veikur og litlaus þingflokkur

Hann tekur undir orð ýmissa viðmælenda, sem hafa lýst í eyru blaðamanns þeirri skoðun sinni að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé fremur veikur og litlaus og hið sama eigi við um borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. „Nema þar eru veikleikarnir miklu meiri og litleysið algjört. Það er sláandi hvað staða flokksins hefur versnað í Reykjavík,“ segir þingmaðurinn. Hann bætir því við að þótt hann segi þetta um sinn eigin þingflokk, þá sé þetta ekki eitthvað sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins ræði opinberlega.

Helst er bent á að einhver átök geti orðið um stefnu flokksins í skatta- og peningamálum. Mörgum þyki hvergi nærri nóg hafa verið að gert í skattalækkunum, einkum lækkun á tekjuskatti einstaklinga. Þó er bent á að ekki megi gleyma því að miðþrepið í tekjuskatti einstaklinga verði afnumið og neðra þrepið lækkað.

Telja stöðu formannsins sterka

Í samtölum við landsfundarfulltrúa var það miklu fremur staða einstakra þingmanna, þingflokksins, ráðherra flokksins og borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins sem bar á góma, ekki málefnin sjálf.

Flestir virðast sammála um að staða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sé sterk og sögðu ýmsir viðmælendur að hann hefði vaxið mikið í starfi og bentu á þann árangur sem hann hefði náð í stjórn efnahags- og fjármála. Viðmælendur eiga von á því að Bjarni fái góðan stuðning í formannskjöri.

„Ég held að málefnaleg staða flokksins sé nokkuð sterk og ég tel að grunngildi hans og stefna, frelsi einstaklingsins og aukin áhrif hans, eigi sama erindi við landsmenn og hún hefur átt í gegnum tíðina,“ sagði þingmaður flokksins.

Hann viðurkennir að staða flokksins samkvæmt skoðanakönnunum sé slök, en telur að flokkurinn eigi eftir að rétta úr kútnum og endurheimta fylgi fjölda sjálfstæðismanna, ekki síst vegna þess árangurs sem náðst hafi á skömmum tíma.

Til dæmis hefðu fáir trúað því fyrirfram að á þessu kjörtímabili tækist að afnema tolla og vörugjöld, þannig að einungis yrðu áfram tollar á matvælum sem væru í samkeppni við innlenda landbúnaðarframleiðslu. Það eitt væri góður árangur.

Segja stöðu Hönnu Birnu veika

Viðmælendum varð tíðrætt um stöðu fráfarandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Flestir virðast þeirrar skoðunar að hennar pólitíska lífi sé að ljúka og staða hennar í flokknum og þingflokknum sögð mjög veik. Því er spáð að Hanna Birna noti næsta ár til þess að gera það upp við sig hvort hún hefur áhuga á að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu alþingiskosningar.

Fullyrt er af ákveðnum viðmælendum að Hanna Birna geri sér ljósa grein fyrir eigin stöðu. Hún hafi reynt að fá ráðherraembætti á nýjan leik þegar hún kom úr fríi í vor, án árangurs. Hún hafi jafnframt kannað sl. vetur hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, hvort hún ætti kost á góðri stöðu í öðru landi, án árangurs. Formennskan í utanríkismálanefnd nú í september hafi því verið eins konar tímabundin dúsa handa Hönnu Birnu, á meðan hún tekur ákvarðanir um hver hennar næstu skref verða.

Ekki hafi verið hægt að horfa framhjá því að hún sé varaformaður flokksins og fyrsti þingmaður Reykvíkurkjördæmis suður. Birgir Ármannsson, 9. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, sem var formaður utanríkismálanefndar og þótti standa sig með ágætum, hafi orðið að una því að formennskan færi til Hönnu Birnu.

„Það kemur ekkert á óvart að sjálfstæðismenn velti póltískri framtíð minni fyrir sér. Ég hef ítrekað deilt því með mínu fólki í flokknum að reynsla liðinna ára hafi vakið hjá mér og mínum spurningar um hvort þetta sé minn framtíðarstaður. Það breytir þó engu um það að stjórnmálin hafa alltaf verið mikil ástríða hjá mér og mig langar enn fátt meira en að berjast fyrir hugsjónum frelsis og tækifæra. Það geri ég nú á hverjum degi á Alþingi en hef enga ákvörðun tekið um það hvort ég muni gera það til fimmtugs, sextugs eða jafnvel sjötugs. Sú ákvörðun kemur síðar,“ sagði Hanna Birna þegar hún var spurð hvort hún væri á útleið úr pólitík.

Annað hljóð er í strokknum þegar kemur að umræðu um arftaka Hönnu Birnu í innanríkisráðuneytinu, Ólöfu Nordal. Mikill samhljómur er í máli viðmælenda, sem telja hana hafa staðið sig vel sem innanríkisráðherra. Sömuleiðis virðast menn sannfærðir um að hún fái góða kosningu sem varaformaður.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra gefur kost á sér í sæti varaformanns …
Ólöf Nordal innanríkisráðherra gefur kost á sér í sæti varaformanns á landsfundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Hanna Birna Kristjánsdóttir hættir sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum
Hanna Birna Kristjánsdóttir hættir sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum Kristinn Ingvarsson
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013 Ómar Óskarsson
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013 Ómar Óskarsson
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013 Ómar Óskarsson
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013 Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka