„Engan áhuga á verðtryggingu“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Forsætisráðherra segir stjórnarandstöðuna ekki hafa raunverulegan áhuga á að ræða um stöðu verðtryggingarinnar. Þetta kom fram í máli hans á Alþingi í dag. Stjórnarandstöðuþingmenn lögðu við upphaf þingfundar í morgun fram dagskrártillögu þess efnis að sérstök umræða yrði tekin á dagskrá þingsins í dag um verðtrygginguna. Tillagan var felld en áður fór fram löng umræða þar sem stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýndu Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrir að vilja ekki ræða um verðtrygginguna í sérstakri umræðu í þinginu.

Eftir að dagskrártillagan hafði verið felld tóku við óundirbúnar fyrirspurnir þingmanna til ráðherra og kom fyrsta fyrirspurnin frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, en fyrirspurnin smerist um fjármagnshöftin og afnám þeirra. Sigmundur Davíð hóf svar sitt á þeim orðum að eftir að hafa orðið fyrir gagnrýni meðal annars af hálfu Árna Páls fyrr um morguninn fyrir að vilja ekki ræða um verðtrygginguna snerist fyrirspurn Árna alls ekki um verðtrygginguna heldur allt annað mál sem þingmaðurinn hefði áður spurt um.

„Nú er stjórnarandstaðan búin að halda þinginu í gíslingu nú á annan klukkutíma í því sem líktist málþófi á lokastigi þar sem hún heimtaði að svarað yrði spurningum um verðtryggingu. Og á meðan var ekki hægt að svara spurningu þingmanna. Nú þegar loksins, háttvirtur þingmaður Árni Páll Árnason, fær tækifæri til þess að spyrja spurningar þá hefur hann engan áhuga á að spyrja um verðtryggingu. Hann spyr í staðinn um mál sem hann hefur spurt um áður og fengið svör við,“ sagði forsætisráðherra.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert