Hvað kostar að æfa knattspyrnu?

Ungir knattspyrnuleikmenn á velli.
Ungir knattspyrnuleikmenn á velli. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Æfingargjöld í 4. og 6. flokki flestra íslenskra knattspyrnufélaga hafa hækkað umtalsvert frá því í fyrra eða allt upp í 25%. Mikill munur er á æfingagjöldum hjá ódýrustu félögunum og þeim dýrustu eða allt upp í 59%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verðlagseftirliti ASÍ sem tók saman æfingagjöld í knattspyrnu hjá 4. og 6. flokki 16 íþróttafélaga víðsvegar um landið. Eftirlitið reiknaði út mánaðargjöld félaganna og bar þau saman.

Í báðum flokkum er dýrast  að æfa hjá Breiðabliki. Í 4. flokki (12-13 ára) kostar mánuðurinn 8.250 kr. eða 33.000 krónur fyrir haustönnina sem spannar fjóra mánuði. Ódýrast var að æfa hjá ÍR og UMF Selfoss en þar kostar mánuðurinn 5.500 kr. eða 22.000 kr. fyrir fjóra mánuði. Verðmunurinn er 50% eða 11.000 kr.

Mánuður í 6. flokki (8-9 ára) Breiðabliks kostar mánuðurinn 7.417 kr. eða 29.667 kr. fyrir fjóra mánuði. Ódýrast var að æfa hjá KA en þar kostar mánuðurinn 4.667 kr. eða 18.667 kr. Verðmunurinn er 59% eða 11.000 kr.

Miklar hækkanir frá því í fyrra

Gjaldskrá félaganna hefur aðeins staðið í stað hjá tveimur félögum í báðum flokkum, FH og Knattspyrnufélaginu Víkingi. Einnig var sama gjaldskrá fyrir 6. flokk á milli ára hjá Knattspyrnufélaginu Haukum. Önnur félög hafa hækkað gjaldskrána um 2-25%.

Mesta hækkunin í 4. flokki var hjá Þór Akureyri, úr 20.000 kr. í 25.000 kr. eða um 25%, hjá KA og HK um 13%, hjá Fram um 12% og hjá KR, Gróttu og UMF Selfoss um 10%.

Í 6 . flokki var mesta hækkunin hjá Fram, úr 18.667 kr. í 21.667 kr. eða um 16%, hjá Þór um 14%, HK um 12%, Breiðabliki og UMF Selfoss um 11% og hjá KR, Stjörnunni og Gróttu um 10%.

Samanburður ASÍ á æfingagjöldum.
Samanburður ASÍ á æfingagjöldum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert