Vilja aðgerðir til að stoppa samkeppnishindranir

Samkeppniseftirlitið segir úthlutun afgreiðslutímanna samkeppnishindrandi.
Samkeppniseftirlitið segir úthlutun afgreiðslutímanna samkeppnishindrandi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Samkeppniseftirlitið hefur í dag beint því til innanríkisráðherra og Samgöngustofu að grípa til aðgerða vegna samkeppnishindrana sem tengjast úthlutun afgreiðslutíma fyrir flugfélög á Keflavíkurflugvelli. Með þessum álitum lýkur rannsókn á grundvelli kvörtunar WOW Air, sem beint var til stofnunarinnar á síðasta ári. Þetta kemur fram í frétt frá Samkeppniseftirlitinu.

Með afgreiðslutíma er hér átt við tíma sem flugfélög fá úthlutað á flugvelli til að lenda og nýta sér flugafgreiðslu og þjónustu á flugvellinum og taka aftur á loft.

Samkeppnisforskot Icelandair

Á undanförnum árum hafa keppinautar Icelandair ítrekað kvartað yfir því að Icelandair njóti samkeppnisforskots þar sem félagið hafi fengið forgang að afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli á milli kl. 7:00 og 8:00 og 16:00 og 17:30. Sá forgangur taki einnig til nýrra afgreiðslutíma sem bæst hafa við á síðustu árum.

Segir í fréttinni að rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiði í ljós að afgreiðslutímar á þessum tímabilum séu sérstaklega mikilvægir flugfélögum sem vilja koma á samkeppni í tengiflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku, með Keflavíkurflugvöll sem tengistöð. Rannsóknin leiðir ennfremur í ljós að Icelandair hefur ekki aðeins forgang að afgreiðslutímum sem félaginu hefur verið úthlutað áður, heldur einnig nýjum afgreiðslutímum sem stafa af aukinni afkastagetu.

Núverandi fyrirkomulag samkeppnishindrandi

Að mati Samkeppniseftirlitsins felur núverandi fyrirkomulag við úthlutun afgreiðslutíma í sér samkeppnishindranir. Er því beint til innanríkisráðuneytisins og Samgöngustofu að ráðast í aðgerðir þar sem hagsmunum almennings af virkri samkeppni í áætlunarflugi verði gefinn forgangur.

Haft er eftir Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra eftirlitsins, að stjórnvöldum beri skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að allir keppinautar sitji við sama borð í þessu máli.

Segir í fréttinni að á síðustu árum hafi aukin afkastageta flugvallarins á álagstímum, þ.e. milli kl. 7:00 og 8:00 og 16:00 og 17:30 í öllum tilvikum verið úthlutað til Icelandair, þrátt fyrir að WOW Air hafi óskað eftir úthlutun á álagstíma.

Framtíðaráform til að mæta þörfum Icelandair en ekki minni keppinauta

Segir Samkeppniseftirlitið að framtíðaráform Isavia um uppbyggingu næstu 25 árin á Keflavíkurflugvelli geri ráð fyrir tvöföldun á afkastagetu. Sterkar vísbendingar eru um að þessari aukningu á afkastagetu sé ætlað að mæta þörfum Icelandair, en ekki minni keppinauta. Þetta má m.a. ráða af þeirri afstöðu til samkeppnissjónarmiða sem birst hefur í svörum Isavia, að mati eftirlitsins.

Þá nefnir Samkeppniseftirlitið hlutverk samræmingarstjóra, en hann fer með úthlutun afgreiðslutíma. Það er danskur aðili sem fer með það hlutverk samkvæmt samningi við stjórnvöld. Honum ber að horfa til tiltekinna viðmiðana við úthlutunina, meðal annars samkeppnissjónarmiða. Segir Samkeppniseftirlitið að svör hans við fyrirspurn stofnunarinnar gefi ótvírætt til kynna að síðustu ár hafi hann ekki haft hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum við úthlutun nýrra afgreiðslutíma.

Isavia virti að vettugi tilmæli eftirlitsins

Að lokum segir Samkeppniseftirlitið að Isavia hafi virt að vettugi tilmæli Samkeppniseftirlitsins um að framkvæma samkeppnismat við endurskoðun á fyrirkomulagi við úthlutun á afgreiðslutímum. Segir eftirlitið að Isavia hafi margítrekað mótmælt mati Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegu mikilvægi afgreiðslutíma á umræddum álagstímum. Þá bera samskipti við Samgöngustofu með sér að stofnunin hefur takmarkaðan skilning á þeim samkeppnishindrunum sem tengjast úthlutun á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli og Samkeppniseftirlitið hefur bent á um árabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert