Varhugavert að víkja lögunum til hliðar

Í skýrslunni er m.a. fjallað um endurlán ríkissjóðs til Vaðlaheiðarganga …
Í skýrslunni er m.a. fjallað um endurlán ríkissjóðs til Vaðlaheiðarganga hf. mbl.is/Skapti

Ríkisendurskoðun varar við því að ákvæðum laga um ríkisábyrgðir sé vikið til hliðar þegar slíkar ábyrgðir eru veittar eða þegar ríkissjóður veitir endurlán, eins og dæmi eru um. Stofnunin hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að hafa tilgang og markmið laganna ávallt að leiðarljósi þegar það leggur fram tillögur um ríkisábyrgðir eða endurlán.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um ríkisábyrgðir og endurlán ríkissjóðs.

Fram kemur í skýrslunni að í árslok 2014 hafi ríkisábyrgðir numið samtals 1.213 milljörðum króna. Stærstur hluti þeirra eða 73% var vegna lána til Íbúðalánasjóðs en um fjórðungur var vegna lána til Landsvirkjunar. Einungis tveir aðilar hafa fengið endurlán frá ríkissjóði frá árinu 2012: Lánasjóður íslenskra námsmanna og Vaðlaheiðargöng hf., að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.

Í skýrslunni kemur fram að dæmi séu um að lögbundið umsagnarhlutverk Ríkisábyrgðasjóðs hafi verið skert í sérlögum. Þetta hafi t.d. verið gert þegar Alþingi veitti ráðherra heimild til að ábyrgjast skuldabréf Íslenskrar erfðagreiningar árið 2002. Þá hafi lögum um ríkisábyrgðir verið vikið til hliðar nánast í heild sinni. Þegar Alþingi veitti ráðherra heimild til að fjármagna Vaðlaheiðargöng árið 2012 hafi tilteknum ákvæðum laganna verið vikið til hliðar, þ. á m. ákvæðum sem eiga að takmarka áhættu ríkissjóðs.  Ríkisendurskoðun geldur varhug við slíku verklagi. Stofnunin hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að hafa tilgang og markmið laganna ávallt að leiðarljósi þegar það leggur fram tillögur um ríkisábyrgðir eða endurlán ríkissjóðs.

Fram kemur að Ríkisábyrgðasjóður telji sig ekki hafa nauðsynlegar lagaheimildir og stjórntæki til að geta sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að styðja vel við starfsemi sjóðsins og taka afstöðu til ábendinga hans um úrbætur á lagaumhverfinu.

Ríkisábyrgðir eru ábyrgðir sem ríkissjóður tekst á hendur vegna lánaskuldbindinga lögaðila. Þær eru ýmist veittar með lögum eða þá að ríkið ber ábyrgð sem eigandi lántakans (eigendaábyrgð). Endurlán ríkissjóðs eru lán sem sjóðurinn veitir af sínu lánsfé til lögaðila, 

Um ríkisábyrgðir og endurlán ríkissjóðs gilda sérstök lög (nr. 121/1997). Samkvæmt þeim hefur Ríkisábyrgðarsjóður m.a. það hlutverk að veita umsögn um lagafrumvörp um ríkisábyrgð. Í umsögn sjóðsins skal m.a. koma fram mat á greiðsluhæfi skuldarans, tryggingum hans og mögulegri hættu á að ábyrgðin falli á ríkissjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka