Milljónabætur vegna sinuelds

Sinu- og kjarreldur kviknaði síðdegis 26. maí 2010 við Jarðlangsstaði …
Sinu- og kjarreldur kviknaði síðdegis 26. maí 2010 við Jarðlangsstaði við Langá á Mýrum. Theodór Þórðarson

Hæstiréttur hefur dæmt verktakafyrirtæki og tryggingafélag þess til að greiða eiganda lands sem brann í sinueldi árið 2010 tæpar 17 milljónir króna í bætur vegna þess að tafir hafi orðið á sölu lóða á jörðinni. Eldurinn kviknaði undan hita frá útblástursröri fjórhjóls sem vertakinn notaði.

Landeigandinn skaut málinu til Hæstaréttar en Héraðsdómur Reykjaness hafði áður aðeins fallist á hluta kröfu hennar og dæmt verktakann og tryggingafélagið til að greiða á fjórðu milljón króna í bætur.

Tveir starfsmenn verktakafyrirtækisins unnu við lagningu vatnsleiðslu um sumarhúsasvæði á jörð landeigandans, Jarðlangsstöðum í Borgarbyggð, þegar eldurinn kviknaði. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þeim hafi átt að vera ljóst að hiti frá útblástursröri fjórhjólsins gæti kveikt eld sem gæti breiðst út.

Því féllst dómurinn á að verktakafyrirtækið hefði borið ábyrgð á því að tafir hefðu orðið á því að landeigandinn gæti selt lóðir. Tjónið var metið á tæpar 17 milljónir króna og dæmdi Hæstiréttur fyrirtækið og tryggingafélagið til þess að greiða landeigandanum þá fjárhæð í bætur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert