Þrír þingmenn Pírata hafa lagt fram frumvarp til breytinga á þingsköpum Alþingis þess efnis að fjórðungur þingmanna geti farið fram á að atkvæðagreiðsla í þinginu um tillögu um vantraust á ríkisstjórn eða ráðherra verði leynileg. Ennfremur að vantrauststillögu skuli setja á dagskrá Alþingis eins fljótt og auðið er eftir að hún hefur verið lögð fram.
„Meginbreytingin sem frumvarpið felur í sér er að fjórðungur þingmanna geti farið fram á að atkvæðagreiðslan um vantrauststillögu verði leynileg. Markmiðið með þeirri tilhögun er að gera þingmönnum kleift að greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni án utanaðkomandi þrýstings hvort sem hann er frá samþingsmönnum, kjósendum, fjölmiðlum eða öðrum,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er varaþingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, en meðflutningsmenn Ásta Guðrún Helgadóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson.