Hanna Birna: Uppgjör bíða minningarbóka

Hanna Birna Kristjánsdóttir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í morgun.
Hanna Birna Kristjánsdóttir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir, vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, seg­ist ekki vera á leiðinni úr stjórn­mál­um og hyggst vera áfram í for­ystu­sveit Sjálf­stæðis­flokks­ins. Hún seg­ist ekki hafa farið í vara­for­mannsslag til þess að hlífa til­finn­ing­um sinna nán­ustu og halda at­hygl­inni á mál­efn­um lands­fund­ar­ins.

Þetta kom fram í skýrslu henn­ar á 42. fundi flokks­ins sem fer fram í Laug­ar­dals­höll um helg­ina.

Hönnu Birnu varð tíðrætt um þakk­læti til Sjálf­stæðis­flokks­ins og sagðist vera stolt af því að vera hluti af ein­vala liði. Hún fór yfir stefnu­mál síðasta lands­fund­ar og sagði flokk­inn hafa náð mikl­um ár­angri. „Það er samt svo stutt síðan hug­mynd­ir okk­ar um  betra sam­fé­lag voru í besta falli fjar­læg­ur draum­ur dug­mik­ill­ar þjóðar. Þjóðar sem alltof lengi hafði búið við þá mar­tröð sem úrræðalaus, úrill og ör­magna vinstri­stjórn bauð uppá. En okk­ur tókst að snúa vörn Íslands í stór­sókn.“

Til­finn­ing um órétti skipt­ir engu

Hún sagði öllu máli skipta að vera í liðinu sem spil­ar slíka stór­sókn, til­heyra hópn­um og til­heyra heild­inni til að ná ár­angri fyr­ir fólkið í land­inu. „Í því sam­hengi, kæru vin­ir, skipta von­ir og vænt­ing­ar ein­stakra for­ystu­manna afar litlu. En póli­tísk von­brigði þeirra og til­finn­ing fyr­ir því að hafa órétti beitt­ir skipt­ir enn minna máli. Og engu máli. Engu máli í sögu­legu sam­hengi okk­ar hug­sjóna og hug­mynda,“ sagði Hanna Birna.

„Slík upp­gjör verða ein­fald­lega að bíða minn­ing­ar­bóka, nú eða minn­ing­ar­mynda, á efri árum. En minnið mig þá á það kæru vin­ir, að titl­arn­ir Ár drek­ans, Frá hruni og heim og Síðasta orr­ust­an, hafa all­ir þegar verið notaðir.“

Hanna Birna sagði það hvorki hafa verið ein­falda né auðvelda ákvörðun að gefa ekki aft­ur kost á sér til embætt­is vara­for­manns. Hún sagði fyrra fram­boðið hafa verið sitt per­sónu­lega svar við spurn­ing­unni: „Hvað get ég gert?“

Hún sagði  að hug­mynd­ir sín­ar um betri stjórn­mál ættu síst minna er­indi nú en áður, um að ákveðin breidd í for­ystu flokks­ins væri mik­il­væg og að kon­ur mættu ekki enn sem áður hörfa þegar móti blési.

„Ísdrottn­ing­ar“ velja líka að stíga til hliðar

„Stund­um er það svo, kæru vin­ir, að kald­ir vind­ar hafa blásið svo lengi að jafn­vel þær sem þykja extra harðger­ar hægri­kon­ur, og eru jafn­vel kallaðar ís­drottn­ing­ar þegar þannig ligg­ur á mönn­um, velja að stíga til hliðar.“

Hún sagði ákvörðun sína ekki hafa neitt að gera með óbilandi trú sína á hug­sjón­um flokks­ins. „Hún hef­ur held­ur ekk­ert að gera með þá miklu ástríðu sem ég hef fyr­ir verk­efn­un­um framund­an og held­ur ekk­ert að gera með póli­tísk áform mín til lengri eða skemmri tíma. Ég er fyrsti þingmaður Reyk­vík­inga. Ég verð áfram í for­ystu­sveit Sjálf­stæðis­flokks­ins. Mér finnst ég vera í drauma­starf­inu og það eru eng­ar drama­tísk­ar breyt­ing­ar í und­ir­bún­ingi,“ sagði Hanna Birna og bætti við að hún vonaðist til þess að þetta myndi ekki hryggja skýrend­ur í mál­efn­um flokks­ins.

„Trúið mér, ég er í stjórn­mál­um, ætla að starfa þar áfram og verð á þeim vett­vangi áfram,“ sagði Hanna Birna og upp­skar lófa­tak lands­fund­ar­gesta.

Frá setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Frá setn­ingu lands­fund­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert