Ísland hagnist mest á loftslagsbreytingum

Snjóþungt hálendi. Myndin er tekin við Landmannalaugar fyrr í þessum …
Snjóþungt hálendi. Myndin er tekin við Landmannalaugar fyrr í þessum mánuði. mbl.is/RAX

Loftslagsbreytingar næstu áratugi munu ekki aðeins koma illa við efnahag þjóða heimsins heldur mun verðmætasköpun einnig færast frá heitari stöðum á jörðinni til hinna kaldari. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem gerð var við Stanford háskóla og birtist í vísindaritinu Nature.

Rannsakendur greindu efnahag 166 ríkja á 50 ára tímabili, frá árinu 1960 fram til ársins 2010. Skoðuðu þeir þjóðarframleiðslu landa í venjulegu árferði í samanburði við óvenju köld og heit ár. Eftir að litið var til staðsetningar þjóðríkjanna, breytinga á efnahagi þeirra og þróunar í alþjóðaviðskiptum, fundu þeir út að kjörhitastig fyrir menn til að framleiða vörur, svokallað „Gullbrár-hitastig“, er 13 gráður.

Slæm áhrif á landbúnað, efnahag og lýðheilsu

Þegar framtíðarspár um loftslagsbreytingar eru metnar með hliðsjón af þessum upplýsingum, segja rannsakendur að 77% ríkja heimsins muni sjá fram á lækkandi þjóðarframleiðslu á hvern íbúa, þar sem laun meðal manneskju muni lækka um 23%. Óvenju hátt hitastig muni þannig hafa slæm áhrif á landbúnað, efnahag og lýðheilsu, að sögn rannsakenda.

Nokkur lönd eru sögð munu græða stórkostlega á breyttu loftslagi.
Nokkur lönd eru sögð munu græða stórkostlega á breyttu loftslagi. mbl.is/RAX

Setja Ísland í fyrsta sæti

Á hinn bóginn segja þeir að nokkur lönd muni græða stórkostlega á breyttu loftslagi. Taka þeir mið af árinu 2099 og setja Ísland þar í fyrsta sæti, þar sem rannsóknin sýni að þjóðarframleiðsla á hvern íbúa hér á landi muni á því ári vera um 1.250.000 Bandaríkjadölum meiri en ef ekki kæmi til loftslagsbreytinga. Munurinn nemur tæpum 162 milljónum króna, en gert er ráð fyrir að án loftslagsbreytinga verði þjóðarframleiðsla á hvern íbúa um 243 þúsund Bandaríkjadalir, eða rúmlega 31 milljón króna.

Búist er við að loftslagsbreytingar muni bitna mest á Mið-Austurlöndum, Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Íbúar landa í þessum heimshlutum búa þegar við hita sem er hærri eða jafnhár „Gullbrár-hitastiginu“. Mun framleiðsla þeirra því aðeins minnka eftir því sem hitastig heimsins hækkar, segja rannsakendur.

Fréttavefur Quartz fjallar um rannsóknina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert