Um þessar mundir eru 40 ár síðan kvennafrídagurinn var haldinn árið 1975, þegar fjölmargar konur felldu niður störf í heilan dag til að varpa ljósi á ójafna stöðu sína saman borið við karla. Tímarit breska ríkisútvarpsins fjallar ítarlega um þennan dag þar sem sagt er að hann hafi markað vatnaskil í réttindabaráttu íslenskra kvenna.
Rætt er við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem segir að það sem gerðist þennan dag hafi verið fyrsta skref kvenna á Íslandi til að losna úr ánauð sinni. „Þetta gjörsamlega lamaði landið og augu margra karla opnuðust í kjölfarið,“ segir Vigdís.
Bankar, verksmiðjur og margar búðir neyddust til að loka dyrum sínum vegna þessa, auk skóla og dagheimila. Þurftu margir feður því að taka börn sín með á vinnustaði þeirra. Hermt er að svo mikil spurn hafi verið eftir pylsum, sökum vinsælda þeirra á meðal barna og þess hversu auðvelt er að elda þær, að þær hafi selst upp þennan dag.
„Við gátum heyrt börn að leik í bakgrunninum á meðan fréttaskýrendur lásu upp fréttir í útvarpinu. Það var frábært áheyrnar, vitandi það að karlarnir þyrftu að sjá um allt saman,“ segir Vigdís.
„Ég held að í fyrstu hafi körlunum fundist þetta vera fyndið uppátæki, en mig rekur ekki minni til þess að nokkur hafi verið reiður,“ segir Vigdís, spurð hvaða skoðun karlar hafi haft á frídeginum. „Þeir áttuðu sig á því að ef þeir settu sig upp á móti þessu eða neituðu konum um leyfi þá myndu þeir fljótt missa vinsældir sínar.“
Heyrst hefur þó af nokkrum körlum sem stóð ekki alveg á sama á þessum baráttudegi kvenna. Er eiginmaður einnar þeirra kvenna sem tóku þátt í ræðuhöldum dagsins sagður hafa verið spurður af vinnufélaga sínum: „Af hverju leyfirðu konunni þinni að gaula svona á almannafæri? Aldrei myndi ég nokkurn tíma leyfa konunni minni að gera þetta.“ Eiginmaðurinn svaraði þá um hæl: „Hún myndi heldur aldrei nokkurn tíma giftast manni eins og þér.“
Styrmir Gunnarsson, þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir í samtali við tímaritið að hann hafi engum mótbárum hreyft við hugmyndinni. „Ég held að ég hafi aldrei stutt verkfall en ég leit ekki á þetta sem verkfall. Þetta var krafa um jöfn réttindi karla og kvenna og þannig jákvætt framtak.“
Allar konur sem störfuðu við blaðið á þeim tíma felldu niður störf á þessum degi fyrir 40 árum. Styrmir segist telja að engar þeirra hafi þó þurft að þola neinn launamissi vegna þessa. Allar sneru þær þá aftur á miðnætti til að aðstoða við að gefa út blað morgundagsins. Það var þó talsvert styttra en venjulega, 16 blaðsíður, í stað 24.
„Eins og við segjum á Íslandi, það fennir fljótt í sporin,“ segir Vigdís að lokum. „Það er viss tilhneiging að leyfa sögubókunum að gleypa viðburði sem þessa. En við tölum enn um þennan dag, hann var stórkostlegur.“
Í tilefni af þessum tímamótum hefur Kvenréttindafélag Íslands gefið frá sér ályktun, þar sem því er fagnað að 40 ár eru síðan konur gengu út af vinnustöðum sínum og mótmæltu stöðu sinni og kjörum.
„Í ár fögnum við því að 100 ár eru liðin síðan konur fengu sjálfsögð borgaraleg réttindi, kosningarétt og kjörgengi. Í ár fögnum við því að 20 ár eru síðan 189 þjóðir heims samþykktu að starfa að kvenréttindum og bættum hag kvenna,“ segir í ályktuninni, en í framhaldinu er staða kvenna í íslensku samfélagi gagnrýnd.
„Ísland stendur efst á alþjóðlegum lista yfir frammistöðu ríkja á sviði jafnréttis kynja. Af hverju er það þá svo að launamunur kynjanna er enn landlægur hér á landi? Af hverju er ofbeldi gegn konum enn ekki tekið alvarlega af lögreglu eða í réttarkerfinu? Af hverju hafa konur ekki enn fullan yfirráðarétt yfir líkama sínum? Af hverju eru konur enn nánast ósýnilegar á æðstu stigum dómskerfisins og viðskiptalífsins? Þetta eru aðeins fáeinar þeirra spurninga sem kvenréttindakonur hljóta að spyrja sig í dag.
Við getum gert betur. Við eigum að gera betur.“