Kostnaður við gerð fyrstu léttlestar hér á landi yrði mikill, eða um 27 milljarðar króna, en ábati sem fengist af því að fylgja eftir stefnu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins til 2040 yrði umtalsverður. Auk þess myndi sparast á móti kostnaður vegna nýrra samgöngumannvirkja, þar sem hluti samgangna myndi flytjast yfir á hið nýja lestakerfi.
Þetta er meðal helstu niðurstaðna í meistaraprófsritgerð í byggingaverkfræði eftir Guðbjörgu Brá Gísladóttur. Hún skoðaði hugmyndir sem fram hafa komið um léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu og forhannaði sérstaklega leiðina á milli Smáralindar og Skeifunnar. Sú leið yrði 5,8 km löng og gerir Guðbjörg ráð fyrir sjö lestarstöðvum á leiðinni. Ferðatíminn yrði 11-12 mínútur.
Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.