Forsætisráðuneytið segir hafnargarðinn á framkvæmdasvæðinu við Tollhúsið í Reykjavík njóta verndar á grundvelli laga um menningarminjar nr. 80/2012 vegna aldurs. Á lóðinni má finna tvennar minjar, þ.e. svokallað bólverk, sem hlaðið var árið 1876, og umræddan hafnargarð sem hlaðinn var árið 1914 til 1915.
Hvorar tveggja minjarnar eru eldri en eitthundrað ára og eru því friðaðar samkvæmt lögum. Gísli Steinar Gíslason, stjórnarformaður Landstólpa þróunarfélags, er hins vegar á öðru máli. Segir hann vegginn vera frá árinu 1928.
Sigurður Örn Guðleifsson, settur skrifstofustjóri á skrifstofu menningararfs í forsætisráðuneytinu, segir garðinn hafa verið fluttan fram um sjö metra árið 1928.
„Veggurinn var upphaflega byggður 1914 til 1915 og er hann því orðinn eitthundrað ára. Hann var hins vegar færður fram um sjö metra árið 1928. Og þá segja þeir [framkvæmdaaðilar] vegginn vera frá því ári, en við erum þeirrar skoðunar að færsla á garðinum breyti ekki aldrinum enda er um að ræða sama byggingarefni, sömu hönnun og sama garðinn,“ segir Sigurður Örn í samtali við mbl.is.
Á lóðinni stendur til að reisa íbúðar- og verslunarhúsnæði og féllst settur forsætisráðherra í málinu, Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, á tillögu Minjastofnunar um að friðlýsa hafnargarðinn hinn 22. október sl. Gísli Steinar hefur í samtali við mbl.is hins vegar haldið því fram að sú ákvörðun hafi komið einum degi of seint.
Minjastofnun metur það aftur á móti sem svo að skyndifriðun hafnargarðsins að Austurbakka í Reykjavík hafi tekið gildi hinn 10. september og gilt til 22. október. Undir það tekur Sigurður Örn.
„Það segir í lögum um menningarminjar að ákvörðunin taki gildi þegar hún hefur borist öllum hlutaðeigandi aðilum með tryggilegum hætti,“ segir hann, en ákvörðun er bindandi eftir að tilkynning um hana er komin til aðila og gildir í allt að sex vikur.
Bendir hann á að tilkynning hafi verið send Landstólpa þróunarfélags í lok vinnudags 9. september. Í yfirlýsingu sem Minjastofnun hefur sent frá sér vegna málsins kemur meðal annars fram að forsætisráðherra hafi ekki fengið bréfið í hendur fyrr en daginn eftir, þ.e. hinn 10. september, þó vaktmaður Stjórnarráðsins hafi tekið á móti því eftir lok vinnudags 9. september.
Þá segir einnig að „ekki [hafi verið] send sérstök tilkynning til forsvarsmanna húsfélags Austurbakka 2, en lóðin er í óskiptri sameign eftirtalinna aðila; Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., Landstólpa þróunarfélags ehf., Situs ehf., Kolufells ehf., Landsbankans hf. og Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar, sem síðan hafa stigið fram sem hagsmunaaðilar í málinu. Þá hefur Reginn fasteignafélag einnig stigið fram sem hagsmunaaðili í málinu,“ segir í yfirlýsingunni.
Er það því mat stofnunarinnar og forsætisráðuneytisins að skyndifriðun hafnargarðsins hafi tekið gildi 10. september og gilt til 22. október.
„Svo er einnig vert að hafa í huga að ráðherra hefur heimildir í lögum um menningarminjar til þess að friðlýsa og er að gera það allan ársins hring. Friðlýsingin stendur því alveg óháð þessu,“ segir Sigurður Örn.
Gísli Steinar hefur lýst því yfir í samtali við mbl.is að hann telji vegginn ekki njóta friðlýsingar og sé því í fullum rétti til þess að brjóta hann niður. Spurður út í þetta atriði segir Sigurður Örn: „Fari þeir nú í það að brjóta niður þennan vegg þá er það refsivert að lögum.“
Fulltrúar Landstólpa þróunarfélags munu á morgun klukkan 13 mæta til fundar í forsætisráðuneytinu vegna málsins.