„Sovésk virðiskeðja“ í sjávarútvegi

Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda lýsa furðu sinni á því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem kennir sig við frelsi og framtak, skuli velja sovéskan áætlunarbúskap umfram frjálsa samkeppni. Segja samtökin sovéska virðiskeðju þrífast í íslenskum sjávarútvegi í skjóli Sjálfstæðisflokksins á kostnað frjáls framtaks, samkeppni og þjóðarinnar.

Er þetta meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) en undir hana ritar starfsmaður stjórnar samtakanna, Ólafur Arnarson.

„Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fullyrðir í ályktun um sjávarútvegsmál að „[g]rundvöllur arðsemi sjávarútvegs mun byggja á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar.“ Hér er vísað til hinnar svonefndu „óslitnu virðiskeðju“ þar sem aðgangi að auðlind er úthlutað til aðila, sem hefur á hendi veiðar, vinnslu og sölu allt til smásölustigs án þess að krafa sé gerð um að afli sé boðinn til sölu á markaði,“ segir í áðurnefndri tilkynningu.

„Vera má að hin „óslitna virðiskeðja“ tryggi hámarksarðsemi til stórra útgerða en með því að sniðganga markaðslausnir til verðlagningar á aðgangi að auðlindinni og við sölu á afla er hámarksarðsemi til íslensku þjóðarinnar og hagkerfisins í heild langt frá því að vera tryggð. Hin „óslitna virðiskeðja“ þar sem einn og sami aðili heldur á öllum þáttum frá veiðum til endanlegrar sölu á sér fyrirmynd í áætlunarbúskap að sovéskum hætti, en á lítið skylt við vestrænan markaðsbúskap, sem byggir á því lögmáli að markaðurinn sé best fallinn til að verðleggja takmörkuð gæði,“ segir ennfremur.

Þá er einnig í tilkynningunni vikið að þeirri fullyrðingu landsfundar að íslenskur sjávarútvegur sé í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Er með þessu, að mati SFÚ, gefið í skyn að íslenskur sjávarútvegur sé ekki ríkisstyrktur.

„Þetta er fjarri veruleikanum þar sem íslenskur sjávarútvegur nýtur í raun mikilla ríkisstyrkja. Stórútgerðin greiðir ekki markaðsverð fyrir aðgang sinn að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og í því felst umfangsmikil niðurgreiðsla, sem er ekkert annað en ríkulegur ríkisstyrkur. Þá búa útgerðir sem vinna eigin afla við þau forréttindi að greiða lægra verð fyrir hráefni en sjálfstæðir framleiðendur, sem þurfa að kaupa sitt hráefni á markaði á markaðsverði.

Það er því fráleitt að stilla málum svo upp, sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins gerir, að íslenskur sjávarútvegur sé óstuddur að keppa við ríkisstyrktan erlendan sjávarútveg.“

Þá er SFÚ sagt tilbúið til viðræðna og samstarfs við sjálfstæðismenn og aðra um breytingar á lögum og reglum til að „koma á eðlilegu samkeppnisumhverfi og samkeppni í íslenskum sjávarútvegi til að tryggja hámarksafrakstur af þjóðarauðlindinni í þágu þjóðarbúsins alls“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert