Þúsundir erlendra ferðamanna skoðuðu Gullfoss og Geysi á sunnudaginn var og minnti mannmergðin í veitingasölu og verslunum á annríkið á bjartasta sumardegi.
Svo mikil er aðsóknin að Gullfossi að eigendur Gullfoss kaffis eiga fullt í fangi með að halda í við eftirspurn, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Ný viðbygging Gullfoss kaffis verður opnuð á næstu vikum. Með henni stækkar verslunarrými og sætum í veitingasal fjölgar um 200 í samtals 600 til 700. Skammt frá standa yfir framkvæmdir við nýja 20 herbergja álmu á Hótel Gullfossi, sem verður opnuð í janúar. „Það má segja að við hlaupum ekki nógu hratt. Aðsóknin eykst stöðugt,“ segir Ástdís Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri Gullfoss kaffis, en hún áætlar að milljón erlendra ferðamanna muni heimsækja Gullfoss og Geysi í ár.