Lífeyrisiðgjald fer í 15,5%

Frá undirritun samkomulagsins í Iðnó í dag.
Frá undirritun samkomulagsins í Iðnó í dag. Styrmir Kári

Með heildarsamkomulagi á vinnumarkaði mun lífeyrissöfnun opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almenna markaðinum jafnast. Þetta mun meðal annars leiða til þess að auðveldara verður fyrir fólk að flytja sig á milli opinberra starfa og starfa hjá einkafyrirtækjum. Enn á þó eftir að semja um hvernig farið verður úr stöðunni í dag í nýtt fyrirkomulag. Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is.

Iðgjald á almenna markaðinum hækkar upp í 15,5%

Gylfi segir að ASÍ muni miða við 15,5% iðgjald í samningaviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins, en í heildarsamkomulaginu er rammi settur um að þessar greiðslur verði svipaðar á öllum vinnumarkaðinum. Gylfi segir að miðað verði við 11,5% greiðslu frá atvinnurekendum, en 4% frá launþegum. Í dag er lágmarkslífeyrisgreiðsla 12% og koma 8% frá atvinnurekendum meðan 4% koma frá launþegum.

Hann tekur þó fram að sá kostnaður sem hljótist af þessari aðgerð muni vera reiknaður með þegar mat verði lagt á launaskrið milli hópa.

Á að jafna ójafnvægið eftir „höfrungahlaupið“

Gylfi segir að með samkomulaginu sé reynt að jafna ákveðið ójafnvægi sem hafi myndast undanfarin tvö ár. „Þetta svokallaða höfrungahlaup hófst í mars 2014 í kjölfar þess að ASÍ og BSRB sömdu á hógværum nótum í ársbyrjun. Þá sömdu aðrir um miklu meira. Ef við ætlum að jafna þróunina verðum við að byrja fyrir þessa atburðarrás,“ segir hann, en í samkomulaginu verður launastefna samræmd í sameiginlegri kostnaðarvísitölu sem miðar við upphafspunktinn nóvember 2013.

Segir Gylfi að með þessu fái ASÍ hópurinn, BSRB, hluti BHM og jafnvel KÍ leiðréttar ákveðnar skekkjur sem hafa valdið mikilli úlfúð innan sambandanna.

Velferðarkerfið, hagstjórn og peningastefna allt hluti af samkomulaginu

Í samkomulaginu er einnig horft til þess að byggja upp nýtt kjarasamningamódel þar, sambærilegt því sem hefur verið á Norðurlöndunum. Um 70% vinnumarkaðarins er hluti af samkomulaginu. Segir Gylfi að þetta samkomulag núna nái til ársins 2018 og því verði tíminn næstu ár notaður til að byggja upp innviði fyrir nýtt vinnumarkaðsmódel og vera með það tilbúið þegar samið verður árið 2018.

Í því fellst meðal annars aðkoma allra aðila, bæði á vinnumarkaðinum og hins opinbera þannig að allir séu að vinna að sama markmiði. Stjórnvöld og Seðlabankinn séu þannig mikilvægur hluti þess að þetta nýja módel gangi upp, bæði hvað varðar hagstjórn og peningastefnu að mati Gylfa. Þannig þurfi að eiga sér stað samtal við stjórnvöld og Seðlabankann um hvernig deila eigi ábyrgð á gengi og verðlagi. „Það skiptir líka máli að ná sátt um velferðarkerfið og tekjujöfnunina. Misskipting gæðanna mun eyðileggja þetta módelið eins og varð árin 2004 til 2007,“ segir Gylfi að lokum.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert