Markar vatnaskil á vinnumarkaði

Frá undirritun samkomulagsins í dag.
Frá undirritun samkomulagsins í dag. Mynd/Styrmir Kári

Vonir standa til að heildarsamkomulag á vinnumarkaði, sem var undirritað í dag af forsvarsmönnum launa­fólks og at­vinnu­rek­enda á al­menn­um og op­in­ber­um vinnu­markaði, verði til að sambærilegur árangur náist og sést hefur á Norðurlöndunum undanfarna áratugi. Þetta felur í sér að byggja upp kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu og stöðugs gengis og þar af leiðandi lægra vaxtastigs. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is.

Markar vatnaskil á vinnumarkaði

„Ég held að þetta samkomulag marki vatnaskil í íslenskum vinnumarkaði,“ segir Þorsteinn, en hann tekur þó fram að enn sé mikil vinna framundan, t.d. varðandi að ljúka kjarasamningum til ársins 2018, ljúka samræmingu lífeyrisréttinda á bæði almenna og opinbera vinnumarkaðinum og ekki sést að fullmóta það kjarasamningalíkan sem stefnt er að því að koma á fót hér fyrir næstu kjarasamningalotu árið 2018.

Frétt mbl.is: Heildarsamkomulag á vinnumarkaði

„Við höfum dregist aftur úr, en við teljum að með þessu getum við unnið upp þann slaka aftur,“ segir Þorsteinn aðspurður hvað hann telji mikilvægasta þáttinn í þessari vegferð. Segir hann aðila vinnumarkaðarins með þessu skuldbinda sig til að gerbreyta vinnubrögðum. Segir hann bæði launþegahreyfinguna og atvinnurekendur telja að með þessum vinnubrögðum muni nást meiri árangur, sátt og traust á vinnumarkaðinum. „Ef vel tekst ættum við að ná sambærilegum árangri og frændur okkar á Norðurlöndunum,“ segir Þorsteinn.

Stoppar svokallað „höfrungahlaup“

Lagt var af stað í þessa vegferð árið 2013 með samningum á almenna vinnumarkaðinum í desember það ár. „Það náðist ekki samstaða um þá aðferðafræði þá,“ segir Þorsteinn og bætir við að í kjölfarið hafi hafist svokallað „höfrungahlaup“ sem stóð í 18 mánuði. Segir hann þetta samkomulag eiga að vinda ofan af þeirri stöðu.

Frétt mbl.is: KÍ styður meginsjónarmið rammans

Gagni þessi aðferðafræði eftir segir hann að til lengri tíma muni myndast meiri friður á vinnumarkaðinum og ríkari sátt um hvernig launastefna verði mótuð hverju sinni. Í samkomulaginu er gengið út frá því að í nýju samningalíkani muni fyrirtæki sem framleiða vöru og þjónustu til útflutnings eða í samkeppni við innflutning móta svigrúm til launabreytinga.

Launabreytingar mótist af útflutningsgreinum

Þorsteinn segir að þetta muni leiða til þess að launabreytingar mótist af því sem sé að gerast í nágrannalöndum okkar og framleiðniþróun hér á landi. „Það er það sem ræður svigrúmi til launabreytinga hverju sinni og gröfum ekki undan útflutningsgreinunum, því það sem við þekkjum frá fyrri tíð er að það sem fylgir því er að við fáum mikinn viðskiptahalla, mikið efnahagslegt ójafnvægi og á endanum fábrotnari útflutningsvegi en ella,“ segir Þorsteinn.

Með þessum nýju áherslum segist Þorsteinn vonast til þess að sveiflur muni minnka sem gagnist sérstaklega minni nýsköpunarfyrirtækjum, sem hingað til hafi annað hvort lagt upp laupana eða leitað í að flytja til útlanda.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert