Sænski rithöfundurinn Jakob Wegelius hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verkið Mördarens apa á verðlaunaafhendingu í Hörpu í kvöld.
„Með Mördarens apa blæs Jakob Wegelius nýju lífi í hið sígilda ævintýraform. Lesandinn slæst í för með górillunni Sallý Jones um sóðalegt hafnarhverfi Lissabon-borgar, í taugatrekkjandi siglingu um heimshöfin og í hið íburðarmikla hof furstans í Bhapur á Indlandi – allt til að freista þess að hreinsa nafn sjómannsins Henry Koskela, sem er besti vinur Sallýjar,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.
Segir þar einnig að „með hreinni frásagnargleði og frábærum persónulýsingum bregður höfundur upp ljóslifandi, sögulegri svipmynd frá upphafi 20. aldar – m.a. með heillandi lýsingum á tækninýjungum úr fortíðinni. Listilega gerðar myndskreytingar höfundar og póstkortin, þar sem ævintýrum Sallýjar eru gerð skil, innsigla heildræna upplifun lesandans.“