Búist við mildum vetri á norðlægum slóðum

Ekkert frost í kortunum.
Ekkert frost í kortunum. Skjáskot/Veðurstofan

Búast má við hlýrra veðri á Íslandi næstu daga en verið hefur síðustu daga. Mjög kalt var í veðri í gærmorgun en upp úr hádegi hlýnaði um allt land og fór hitinn upp fyrir frostmark víðast hvar um landið. Búast má við því að hlýindin haldi áfram allt fram í næstu viku ef marka má langtímaspá veðurstofu Íslands. Í Reykjavík má t.a.m. búast við því að hitastig verði 4-10 gráður fram á sunnudag þó að því muni fylgja væta og nokkur vindur.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að veturinn hafi verið með mildasta móti það sem af er. „Eins og spárnar draga má segja að það sé varla að maður sjái frost í spám, þó að einhvers staðar gæti gert næturfrost. En yfir daginn verður meira og minna frostlaust næstu tíu daga samkvæmt spálíkönunum,“ segir Óli Þór.

Veðurvefur mbl.is

Nákvæmari en norskir

Hann gerir þó þann fyrirvara að á þessum árstíma séu spár alla jafna óstöðugar umfram 4-7 daga. „Ég vil meina að það sé vegna fellibylja. Þegar þeir koma inn í veðrakerfin fara líkönin svolítið á hliðina og ráða illa við að fá svona orkumikil kerfi inn í líkanakerfið. Þau verða því óstöðug eftir nokkra daga,“ segir Óli Þór. Hann segir að spákerfi fari þó batnandi með auknum reiknikrafti ofurtölva. „Fyrir 20 árum reiknuðu menn ekki allar breytur sem hægt væri að reikna því menn töldu sumar hafa það lítil áhrif að þeir eyddu ekki reiknikrafti í þær,“ segir Óli Þór.

Á stundum eru ólíkar spár sem koma frá norsku veðurstofunni, sem hægt er að nálgast á vefnum yr.no, og Veðurstofu Íslands. Óli Þór segir það helgast af því að spár Veðurstofu Íslands séu nákvæmari og taki fleiri þætti inn í reikninginn.

„Í grunninn er þetta nákvæmlega sama líkanið en fyrstu tvo til þrjá dagana erum við að keyra háupplausnarlíkön. Þar erum við að reikna staðalfrávik í kringum fjöll og annað slíkt sem móðurlíkanið, sem kemur fram frá Samevrópsku reiknistofunni í veðurfræði, gerir ekki. Það reiknar allan hnöttinn og er tiltölulega gróft líkan en svo erum við að keyra fíngerðara líkan ofan í það. Þar liggur stóri munurinn og við fáum meira af smáatriðum sem týnast í stóra líkaninu,“ segir Óli Þór.

Hann segist hafa lesið það í norskum miðlum að samkvæmt Samevrópsku reiknistofunni hafi verið búist við kaldara vetri en á meðalári fyrir mánuði. Nú hefur það hins vegar breyst og búist er við hlýrra veðri á norðlægari slóðum en á meðalári. „Nýjustu spárnar benda til þess að veturinn verði í mildari kantinum. Svo verður bara að bíða og sjá en hann byrjar á mildu veðri,“ segir Óli Þór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert