Ræddu Churchill í þinghúsinu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tekur á móti David Cameron.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tekur á móti David Cameron. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var ljómandi fínn fundur og óvenju langur og ítarlegur af svona fundi að vera,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, en fyrr í dag átti hann tvíhliða fund með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, inni í Alþingishúsinu.

Skömmu eftir að Cameron yfirgaf Alþingishúsið gaf Sigmundur Davíð sér tíma til þess að ræða stuttlega við blaðamann mbl.is um fund þeirra. Ræddu ráðherrarnir meðal annars öryggis- og varnarmál, baráttuna gegn Ríki íslams og stöðuna í Sýrlandi. 

Vinnuhópur um sæstreng milli landanna

Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér. Miðað er við að umræddur vinnuhópur skili niðurstöðu innan sex mánaða. 

Sigmundur Davíð segir þá einnig hafa farið yfir sögu pólitískra samskipta Íslands við Bretland.

„Þar hefur gengið á ýmsu og vildum við gera það upp,“ segir Sigmundur Davíð og heldur áfram: „Við erum fegnir að vera komnir yfir öll þau vandamál,“ en á fundi ráðherranna sammæltust þeir um að nú væri tími kominn til þess að horfa fram á veginn í samskiptum ríkjanna. Þá kom Sigmundur Davíð einnig á framfæri óánægju með beitingu hryðjuverkalaga þáverandi ríkisstjórnar Gordons Brown gegn Íslandi árið 2008.

Spurður hvort Evrópusambandið hafi borið á góma kveður Sigmundur Davíð já við. „Það var töluvert fjallað um það og um leið áhuga Camerons á að reyna að breyta því. Við vorum sammála um þörfina fyrir breytingar en sjáum svo til hvort hann nái sínu fram þar.“

Sigmundur Davíð segir þá einnig hafa rætt þann mikla fjölda flóttamanna sem kominn er til Evrópu. „Bretland hefur fylgt að miklu leyti sömu stefnu og íslensk stjórnvöld þegar kemur að þeirri áherslu að bæta ástandið í flóttamannabúðum nærri Sýrlandi. Og taka við flóttafólki beint þaðan fremur en að senda þau skilaboð að ekki sé tekið á móti fólki nema það leggi af stað í hættuför með smyglurum,“ segir hann. 

Næst verður Geysir sóttur heim

Er þetta í fyrsta sinn á lýðveldistímanum sem forsætisráðherra Bretlands kemur í heimsókn til Reykjavíkur. Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, sótti Ísland heim hinn 16. ágúst 1941 og fundaði með íslenskum stjórnvöldum.

Aðspurður segir Sigmundur Davíð þá Cameron hafa rifjað upp heimsókn forsætisráðherrans fyrrverandi.

„Hann er mikill aðdáandi Churchill og hafði því gaman af að ræða þá heimsókn. Cameron nær hins vegar ekki að sækja sömu staði heim því breski sendiherrann telur að Churchill hafi farið að skoða hveri í sinni heimsókn. En það gefst víst ekki tími til þess núna,“ segir Sigmundur Davíð og bætir við: „Ég sagði honum hins vegar að hann væri velkominn aftur og þá myndum við skoða saman Geysi.“

Á morgun munu forsætisráðherrar Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og forsætisráðherra Bretlands ræða um áhrif skapandi greina og nýsköpun í opinberri þjónustu á málþinginu Northern Future Forum sem haldin er í Reykjavík.

David Cameron mætti fyrst í Iðnó.
David Cameron mætti fyrst í Iðnó. Mynd/Kristján H. Johannessen
Bílalest Cameron bíður eftir forsætisráðherranum breska.
Bílalest Cameron bíður eftir forsætisráðherranum breska. Mynd/Kristján H. Johannessen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert